Íþróttir

Keflavík vann í baráttunni um bæinn
Daniela Wallen var atkvæðamest í kvöld með tuttugu stig, níu fráköst og 23 framlagspunkta. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 12. janúar 2022 kl. 23:02

Keflavík vann í baráttunni um bæinn

Viðureign Keflavíkur og Njarðvíkur í Subway-deild kvenna átti að fara fram á milli jóla og nýárs en var þá frestað. Það var mikil tilhlökkun fyrir leikinn sem var spilaður í kvöld og spennustigið hjá leikmönnum var hátt en það sást vel á leik liðanna. 

Keflavík - Njarðvík 63:52

(15:9, 14:19, 18:5, 16:19)

Keflvíkingar fóru mun betur af stað og vörn þeirra harðlokaði á Njarðvík framan af fyrsta leikhluta. Keflavík gerði níu stig án þess að Njarðvíkingar kæmust á blað og munaði miklu um framlag Eyglóar Kristínar Óskarsdóttur en þessi hávaxni miðherji varði nokkrar tilraunir gestanna auk þess að skora sjálf og eiga stoðsendingar.

Eygló Kristín stoppar Lavína De Silva í fyrsta leikhluta.

Þegar fyrsti leikhluti var liðinn höfðu heimakonur yfirhöndina 15:9 en Njarðvíkingar bitu frá sér í öðrum leikhluta og hleyptu spennu í leikinn, komust yfir í stöðunni 23:24 en Keflvíkingar náðu aftur forystunni og leiddu í hálfleik með einu stigi, 29:28.

Það var eins og aðeins annað liðið hafi mætt til seinni hálfleiks því öll vinnan sem Njarðvíkingar settu í að minnka muninn í öðrum leikhluta fauk út um gluggann á augabragði. Keflvíkingar réðu lögum og lofum í þriðja leikhluta og gerðu út um leikinn enda gerðu þær átján stig á meðan Njarðvíkingar skoruðu aðeins fimm stig. Eftir þriðja leikhluta var sigur Keflvíkinga aldrei í verulegri hættu og þær unnu sanngjarnan sigur, 63:52.

Frammistaða Keflvíkinga: Daniela Wallen Morillo 20/9 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 10/4 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 9/4 fráköst, Tunde Kilin 6/5 fráköst, Anna Lára Vignisdóttir 5, Eygló Kristín Óskarsdóttir 5/6 fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir 5/5 stoðsendingar, Agnes María Svansdóttir 2, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 1/3 varin skot, Gígja Guðjónsdóttir 0, Ásthildur Eva H. Olsen 0, Anna Þrúður Auðunsdóttir 0.

Frammistaða Njarðvíkinga: Aliyah A'taeya Collier 14/16 fráköst/5 stoðsendingar, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 12, Lavína Joao Gomes De Silva 10/6 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 9, Diane Diéné Oumou 5/10 fráköst, Eva María Lúðvíksdóttir 2, Júlia Scheving Steindórsdóttir 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Helena  Rafnsdóttir  0, Þuríður Birna Björnsdóttir 0, Vilborg Jonsdottir 0/4 fráköst, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á grannaslagnum og má sjá myndasafn neðar á síðunni.

Keflavík - Njarðvík (63:52) | Subway-deild kvenna 12. janúar 2022

Tengdar fréttir