Averette nýr leikstjórnandi hjá Ljónahjörðinni
Njarðvík hefur samið við hinn 28 ára gamla bandaríska leikstjórnanda, Brandon Averette. Kappinn kemur frá Brigham Young University þaðan sem hann útskrifaðist 2021 en síðan þá hefur hann komið við á Kýpur, í Frakklandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Lúxemborg.
„Það var löng leit af rétta leikstjórnandanum sem endaði með Brandon Averette, sem tikkar í öll boxin sem ég var að reyna tikka í. Hann er virkilega hraður og sterkur bakvörður sem á að stjórna okkar leik þetta tímabilið og finna þetta gullna jafnvægi í því að finna sín skot á sama tíma og hann matar liðsfélagana sína. Við vorum kannski að leita að aðeins öðruvísi leikmanni en við vorum með í fyrra og trúum að Brandon muni leysa þetta hlutverk og spila sig inní hjörtu Njarðvíkinga á næstu vikum,” sagði Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkurliðsins, eins og segir á heimasíðu UMFN.