Keflavík er stóri bróðirinn Ljósanótt og bærinn blár
Keflavík fór með sigur af hólmi í stórleik Ljósanætur. Keflvíkingar unnu Njarðvíkinga með tveimur mörkum gegn einu og bærinn er blár.
„El classico“ fór fram á Ljósanótt í dag í Reykjanesbæ en þá mættust bræðurnir úr Reykjanesbæ, Keflavík og Njarðvík. Vel var mætt á HS orkuvöll Keflvíkinga og léku veðurguðirnir við hvurn sinn fingur eftir að hafa vökvað völlinn ærlega nokkrum mínútum áður en leikurinn var flautaður á. Trommusveitir beggja stuðningssveita mættar á vettvang, að sjálfsögðu stýrði Joey Drummer keflvísku hrynsveitinni en hjá Njarðvík var það Jóhann Víðisson.
Leikurinn var báðum liðum mjög mikilvægur en heimaliðinu en mikilvægri, þeir þurftu helst að vinna báða leiki sína og treysta á að HK myndi misstíga, til að eiga möguleika á að komast í umspil liða tvö til fimm. Njarðvíkingar hins vegar að berjast fyrir sigri í Lengjudeildinni, sem gefur beint sæti í Bestu deildinni að ári.
Eftir að Njarðvík var betri aðilinn í fyrri hálfleik án þess að nýta sér það, var það Keflavík sem vann 2-1 sigur eftir að hafa komist í 2-0 á 70. og 74. mínútu. Njarðvík klóraði í bakkann á 94. mínútu en það var of seint.

Njarðvíkingar voru betri aðilinn fyrstu mínúturnar án þess að ná að skapa sér opin færi. Á 15 mínútu gerðist fyrsta markverða atvikið í leiknum, Franz Elvarsson straujaði Tómas Bjarka Jónsson, fyrirliða Njarðvíkur og var samdóma álit blaðamanna að brotið hefði verið nær því að verðskulda rautt spjald en ekkert spjald. Varla hægt að segja að mikið markvert hafi gerst það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en „gestirnir“ ívið betri án þess að skapa opin marktækifæri. Staðan 0-0 í hálfleik.
Keflvíkingar mættu mun grimmari til leiks í seinni hálfleik og var mikið jafnræði með liðunum. Virtist allt stefna í að þessi stórleikur endaði með markalausu jafntefli en upp úr engu nánast komst Keflavík yfir með marki Eiðs Orra Ragnarssonar á 70. mínútu og fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Marin Mudrazija forystuna og allt stefndi í öruggan heimasigur. Oumar Diouck gaf Njarðvíkingum líflínu með marki á 94. mínútu en þar við sat og montrétturinn í Reykjanesbæ á aðalkvöldinu á Ljósanótt, Keflvíkinga.
Í innslaginu má sjá viðtöl við þjálfara og fyrirliða liðanna.
Myndirnar tók Hilmar Bragi Bárðarson.
Önnur úrslit:
Grindavík - ÍR 3-1.
Frábær sigur Grindvíkinga eftir slæmt gengi að undanförnu og þjálfaraskipti. Adam Árni Róbertsson var frábær í sigrinum skoraði fyrstu tvö mörkin og lagði upp þriðja markið fyrir Spánverjan Manuel Gavilan Morales.
2. deild karla
Þróttur - Höttur/Huginn 2-1
Þróttarar í lykilstöðu fyrir lokaumferðina, eru efstir en mega ekki misstíga sig því tvö lið eru á hælunum á þeim. Mörk Þróttar skoruðu Guðni Sigþórsson og Auðun Guðni Auðunsson en gestirnir höfðu komist yfir á 24. mínútu. Frábær sigur Þróttara.
KFA - Víðir 2-0
Víðir komið í fallsæti á nýjan leik því Kári vann sinn leik. Einu stigi munar á liðunum fyrir lokaumferðina sem verður æsispennandi!