Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona

Mannlíf

Á leið til Brussel og kveður bæjarpólitíkina
Valgerður með Eyþóri Sæmundssyni manni sínum og tvíburadætrunum Elmu Ísold og Eldey Sögu í Frakklandi í sumar.
Laugardagur 6. september 2025 kl. 18:15

Á leið til Brussel og kveður bæjarpólitíkina

Bæjarfulltrúinn Valgerður Björk Pálsdóttir var á ferð og flugi í sumar og en hún elskar Ljósanótt og haustið. Það eru breytingar framundan hjá henni og fjöskyldunni því hún er að taka við nýju starfi í Brussel. 

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Ég átti æðislegt sumarfrí, við fjölskyldan fórum í 3ja vikna ferðalag til Frakklands, Sviss og Þýskalands. Gerðum húsaskipti við fjölskyldu sem býr alveg við Genfarvatn Frakklandsmegin þannig að við vorum mikið í því að synda í vötnum og ám og ferðast um fallegu svæðin þarna í kring.

Hvað stóð upp úr?

Rétt fyrir ferðina föttuðum við að við vorum bara í tveggja klukkustunda fjarlægð frá borgunum í Sviss þar sem íslenska kvennalandsliðið í fótbolta var að keppa á EM. Þannig að við ákváðum að fara á leik og öll sú upplifun ásamt því að láta sig fljóta niður ána í Bern var held ég skemmtilegasta minningin úr sumarfríinu.

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Hvað Frakkland og Frakkar voru næs. Hafði aldrei komið til Frakklands og auðvitað heyrt klisjusögur um takmarkaða enskukunnáttu Frakka – sem var að vísu raunin á svæðinu sem við vorum, en það kom ekki að neinni sök heldur voru allir svo hjálplegir og indælir. Og líka hvað húsaskiptin gengu vel en vorum að prófa það í Evrópu í fyrsta skipti, mælum mikið með.

Áttu þér uppáhalds stað til að heimsækja innanlands?

Ég er ekki mikið í því að skoða náttúruperlur, finnst áhugaverðara að heimsækja þéttbýli. Uppáhalds bæirnir mínir á Íslandi eru Flateyri og Ísafjörður. Elska að rölta um gamla bæinn á Ísafirði og fá mér súrdeigsbrauð og kaffi á Heimabyggð og svo er auðvitað besti veitingastaður á landinu þarna, Tjöruhúsið. Á Flateyri er svo einhver ótútskýranleg orka í náttúrunni og fólkinu sem ég hef ekki fundið annars staðar.

Er eitthvað sérstakt á verkefnalistanum í vetur?

Já, ég elska haustin og nú var haustönnin að byrja í Háskóla Íslands þar sem ég kenni námskeið í Stjórnmálafræði. Svo er allt á fullu í pólitíkinni en þetta mun eflaust vera í síðasta skipti sem ég tek þátt í fjárhagsáætlunarferlinu hjá Reykjanesbæ sem kjörinn fulltrúi. Ég ætla ekki að bjóða mig aftur fram í sveitarstjórnarskosningunum á næsta ári þar sem það eru stórar breytingar hjá okkur fjölskyldunni á döfinni. Við erum að flytja til Belgíu í vetur en ég var að fá starf í höfuðstöðvum EFTA, hjá Uppbyggingasjóði EES ríkjanna í Brussel.

Hvernig finnst þér Ljósanótt?

Ég elska Ljósanótt og finnst æðislegt hvað hátíðin hefur þróast mikið undanfarin ár, sérstaklega þegar kemur að því að dreifa viðburðum og að bjóða upp á enn barnvænni dagskrá, m.a. í skrúðgarðinum.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?

Ég ætla að byrja á söngstund í Hljómahöll í hádeginu á fimmtudeginum sem hefur hingað til verið haldin í Ráðhúsinu en verður nú í Bergi. Um leið verður nýja glæsilega bókasafnið  opnað formlega. Svo verður auðvitað kíkt á sýningaropnanir á fimmtudeginum, partí með FS vinkonum á föstudeginum og í árgangagönguna á laugardeginum. Væri líka til í að kíkja á Ljósanæturleikinn (Keflavík-Njarðvík í fótboltanum) og svo er það víst VÆB, Valdimar og Auddi og Steindi með familíunni á stóra sviðinu um kvöldið. Mér finnst svo mjög fínt að fara í tívolítækin með börnunum á sunnudeginum, þá eru alltaf minni raðir.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?

Í fyrra þegar við náðum saman næstum öll fjölskyldan seint á laugardagskvöldinu og dönsuðum saman við Herra Hnetusmjör á stóra sviðinu í geggjuðu veðri. Veðrið og stemningin á laugardeginum 2024 var eitthvað sem ég hef ekki upplifað áður á Ljósanótt.

Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?

Já við gamli vinkonuhópurinn úr FS hittumst alltaf á föstudagskvöldinu og gerum eitthvað saman, höfum bæði farið á Heimatónleikana og í Holtunum heima.

Hvað er svo framundan?

Þessa dagana er ég að reyna að klára doktorsritgerðina mína og undirbúa flutninga til Brussel þannig að það er nóg að gera framundan.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25