Á leið til Brussel og kveður bæjarpólitíkina
Bæjarfulltrúinn Valgerður Björk Pálsdóttir var á ferð og flugi í sumar og en hún elskar Ljósanótt og haustið. Það eru breytingar framundan hjá henni og fjöskyldunni því hún er að taka við nýju starfi í Brussel.
Hvernig varðir þú sumarfríinu?
Ég átti æðislegt sumarfrí, við fjölskyldan fórum í 3ja vikna ferðalag til Frakklands, Sviss og Þýskalands. Gerðum húsaskipti við fjölskyldu sem býr alveg við Genfarvatn Frakklandsmegin þannig að við vorum mikið í því að synda í vötnum og ám og ferðast um fallegu svæðin þarna í kring.
Hvað stóð upp úr?
Rétt fyrir ferðina föttuðum við að við vorum bara í tveggja klukkustunda fjarlægð frá borgunum í Sviss þar sem íslenska kvennalandsliðið í fótbolta var að keppa á EM. Þannig að við ákváðum að fara á leik og öll sú upplifun ásamt því að láta sig fljóta niður ána í Bern var held ég skemmtilegasta minningin úr sumarfríinu.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Hvað Frakkland og Frakkar voru næs. Hafði aldrei komið til Frakklands og auðvitað heyrt klisjusögur um takmarkaða enskukunnáttu Frakka – sem var að vísu raunin á svæðinu sem við vorum, en það kom ekki að neinni sök heldur voru allir svo hjálplegir og indælir. Og líka hvað húsaskiptin gengu vel en vorum að prófa það í Evrópu í fyrsta skipti, mælum mikið með.
Áttu þér uppáhalds stað til að heimsækja innanlands?
Ég er ekki mikið í því að skoða náttúruperlur, finnst áhugaverðara að heimsækja þéttbýli. Uppáhalds bæirnir mínir á Íslandi eru Flateyri og Ísafjörður. Elska að rölta um gamla bæinn á Ísafirði og fá mér súrdeigsbrauð og kaffi á Heimabyggð og svo er auðvitað besti veitingastaður á landinu þarna, Tjöruhúsið. Á Flateyri er svo einhver ótútskýranleg orka í náttúrunni og fólkinu sem ég hef ekki fundið annars staðar.
Er eitthvað sérstakt á verkefnalistanum í vetur?
Já, ég elska haustin og nú var haustönnin að byrja í Háskóla Íslands þar sem ég kenni námskeið í Stjórnmálafræði. Svo er allt á fullu í pólitíkinni en þetta mun eflaust vera í síðasta skipti sem ég tek þátt í fjárhagsáætlunarferlinu hjá Reykjanesbæ sem kjörinn fulltrúi. Ég ætla ekki að bjóða mig aftur fram í sveitarstjórnarskosningunum á næsta ári þar sem það eru stórar breytingar hjá okkur fjölskyldunni á döfinni. Við erum að flytja til Belgíu í vetur en ég var að fá starf í höfuðstöðvum EFTA, hjá Uppbyggingasjóði EES ríkjanna í Brussel.
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
Ég elska Ljósanótt og finnst æðislegt hvað hátíðin hefur þróast mikið undanfarin ár, sérstaklega þegar kemur að því að dreifa viðburðum og að bjóða upp á enn barnvænni dagskrá, m.a. í skrúðgarðinum.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
Ég ætla að byrja á söngstund í Hljómahöll í hádeginu á fimmtudeginum sem hefur hingað til verið haldin í Ráðhúsinu en verður nú í Bergi. Um leið verður nýja glæsilega bókasafnið opnað formlega. Svo verður auðvitað kíkt á sýningaropnanir á fimmtudeginum, partí með FS vinkonum á föstudeginum og í árgangagönguna á laugardeginum. Væri líka til í að kíkja á Ljósanæturleikinn (Keflavík-Njarðvík í fótboltanum) og svo er það víst VÆB, Valdimar og Auddi og Steindi með familíunni á stóra sviðinu um kvöldið. Mér finnst svo mjög fínt að fara í tívolítækin með börnunum á sunnudeginum, þá eru alltaf minni raðir.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
Í fyrra þegar við náðum saman næstum öll fjölskyldan seint á laugardagskvöldinu og dönsuðum saman við Herra Hnetusmjör á stóra sviðinu í geggjuðu veðri. Veðrið og stemningin á laugardeginum 2024 var eitthvað sem ég hef ekki upplifað áður á Ljósanótt.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Já við gamli vinkonuhópurinn úr FS hittumst alltaf á föstudagskvöldinu og gerum eitthvað saman, höfum bæði farið á Heimatónleikana og í Holtunum heima.
Hvað er svo framundan?
Þessa dagana er ég að reyna að klára doktorsritgerðina mína og undirbúa flutninga til Brussel þannig að það er nóg að gera framundan.