Reykjanesbær 3-6 sept
Reykjanesbær 3-6 sept

Mannlíf

Það er líf eftir 67 ára aldurinn
Föstudagur 5. september 2025 kl. 06:20

Það er líf eftir 67 ára aldurinn

Sveindís Valdimarsdóttir er nemi í grasalækningum og segir að sjósund sem hún stundaði í sumar standi uppúr frá sumrinu sem nú er að líða. Hún sér fyrir sért að stunda meira af því í framtíðinni.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Fjörið byrjaði í maí þegar við nokkrar vinkonur héldum saman upp á 67 ára afmælið okkar á Borginni með vinum og vandamönnum. Í júní fór ég til Prag með yndislegu samstarfsfólki mínu í MSS. Átti þar dásamlegan tíma í höfuðborg Tékklands. Þá fór ég einnig á Snæfellsnes með vinkonum og skellti mér svolítið langt út fyrir þægindahringinn. Hjólaði á rafhjóli og fór í sjósund og andaði að mér kraftinum frá jöklinum. Síðan fór ég með foreldra mína norður á Hjalteyri á Sæludaga í sveitinni um verslunarmannahelgina. Þar átti ég frábærar stundir í ættaróðalinu, Knútshúsi. Fyrir utan það naut ég lífsins í sælunni hérna fyrir sunnan með fjölskyldu og vinum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Það kom skemmtilega á óvart að átta sig á því að það er líf eftir 67 ára aldurinn.   

Áttu þér uppáhalds stað til að heimsækja innanlands?

Ég held að ég verði að segja Hjalteyri og svæðið þar í kring og Stafnesið og svæðið þar í kring. Þvælist mikið um það svæði með barnabörnunum.

Er eitthvað sérstakt á verkefnalistanum fyrir komandi vetur?

Já, ég er á leiðinni í nám í grasalækningum. Þetta er tveggja ára nám frá Noregi sem ég mun stunda að mestu leyti í fjarnámi. Meðfram því að njóta lífsins sem eldri borgari í öllum þeim ævintýrum sem því fylgja.

Hvernig finnst þér Ljósanótt?

Mér finnst þessi tími mjög skemmtilegur og viðburðaríkur. Ljósanótt dregur fram það besta í fólki hér á svæðinu og stuðlar að samveru og sköpunarkrafti.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?

Ég mun reyna að sækja það sem ég kemst yfir, bókstaflega. Því úr mörgu er að velja.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?

Ég held að besta minning mín frá Ljósanótt sé þegar ég lék mömmu Rauðhöfða í Duus húsum í uppsetningu Huldu Ólafsdóttur. Þá voru Duus húsin hrá að innan og gott ef þetta var ekki bara fyrsta Ljósanóttin.

Síðan verð ég nú að minnast þess að vera söngkona í Bæjarstjórnarbandinu fræga sem tróð upp á stóra sviðinu á Ljósanótt hér í den.

Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?

Já ég fer alltaf í árgangagönguna og fæ mér hvítvín á Duus eftir á.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25