Nýtt bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll er samfélagsmiðstöð
Það voru gleðistemning og tímamót í Reykjanesbæ þegar Bókasafn Reykjanesbæjar opnaði dyr sínar í nýjum og glæsilegum húsakynnum í Hljómahöll. Þar er nú boðið upp á nútímalegt safnumhverfi, nýja tækni og fjölbreytta þjónustu fyrir bæjarbúa á öllum aldri.
„Við erum komin í miklu betra húsnæði og með meira pláss fyrir alla,“ segir Guðný Kristín Bjarnadóttir, settur forstöðumaður safnsins, í samtali við Víkurfréttir.
Öll fjölskyldan á einum stað
Guðný segir nýja safnið henta öllum: „Við erum með eitthvað fyrir alla – og þetta er orðið eins og ævintýraland fyrir börnin.“
Safnið dreifist á tvær hæðir í Hljómahöll. Á fyrstu hæð er aðalsalurinn, í Merkinessi eru fræðibókmenntir og þá eru aðrir hlutar safnsins á efri hæðinni, þar sem eru barnadeild, ungmennadeild og rými fyrir yngstu gestina.
Tækni, sköpun og samfélag
Í safninu er komið fyrir „makerspace“ verkstæði með 3D prentara, saumavélum og skurðvélum. Fljótlega verður einnig hægt að taka upp eigin hlaðvörp þegar sérstakt podcast-rými verður tekið í notkun.
„Fólk getur pantað tíma, prentað í 3D, saumað eða komið og bara verið – þetta er félagsmiðstöð fyrir alla,“ segir Guðný Kristín.
Ný nálgun í flokkun
„Við tókum saman allar spennusögur og settum þær saman í einn hluta safnsins. Fólk leitaði mikið í glæpasögur áður, svo nú er þeim stillt upp á sýnilegri og aðgengilegri hátt.“
Guðný segir gesti verða fljóta að læra á safnið. „Það tekur enga stund. Fólk kemur bara, labbar um og spyr ef það vantar aðstoð – og við erum að bæta við merkingum.“
Lifandi safn í lifandi húsi
Bókasafn Reykjanesbæjar er nú með opnunartíma:
Virkir dagar: kl. 9:00–18:00
Laugardagar og sunnudagar: kl. 10:00–17:00
Áætlað er að bjóða upp á kvöldopnun einu sinni í mánuði í haust, þar sem gestir geta fengið aðgang utan hefðbundins opnunartíma.
Kaffi, kakó og pallur í sólinni
Á safninu er hægt að fá sér heitt kaffi, kakó og te, og í góðu veðri býður útipallurinn upp á góða hvíld. „Það er bara alls konar í boði – fólk getur líka sest niður og spilað, lesið, verið með börnunum eða nýtt sér tölvur og annan búnað.“
Í myndskeiði í spilara má sjá viðtal við safnstjórann og svipmyndir úr nýju bókasafni bæjarins.