Lögreglan tekur virkan þátt í Ljósanótt
Lögreglan á Suðurnesjum ætlar að taka virkan þátt í Ljósanótt eins og undanfarin ár. Um 40 lögregluþjónar verða á vakt í Reykjanesbæ á laugardaginn, þegar hátíðin nær hámarki.
Sigvaldi A. Lárusson, aðalsvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir í samtali við Víkurfréttir að lögrelgan ætli sér að vera sýnileg og vera úti á meðal fólks. Lögregluþjónar verði m.a. í gönguhópum og á hjólum í bænum. Auk þess að vera á sjálfu hátíðarsvæðinu verður farið á milli heimatónleika. Lögreglan vilji að fólk viti af henni á svæðinu og að hjálpin sé nærri ef á þurfi að halda.
Þá munu samfélagslögregluþjónar einnig vera með unga fólkinu. Ungmenni í elstu bekkjum grunnskóla á svæðinu hafa fengið heimsókn frá samfélagslögreglunni síðustu daga þar sem farið var yfir hvernig hátíðarhöld eins og Ljósanótt fari fram. Tekið verði á unglingadrykkju og áfengi hellt niður hjá þeim sem ekki hafa aldur til.
Í spilaranum er viðtal við Sigvalda um Ljósanótt og þar svarar hann einnig mikilvægustu spruningu sem lögregluþjónar þurfa oft að svara.