Helga María tekur við af Valgerði í Beinni leið
Ekki hefur verið ákveðið hvort Bein leið sem hefur verið eitt af framboðunum í meirihlutasamstarfinu í Reykjanesbæ undanfarin þrjú kjörtímabil muni bjóða fram í næstu kosningum sem verða næsta vor. Valgerður Björk Pálsdóttir, oddviti Beinnar leiðar tilkynnti í viðtali í Ljósanæturblaði Víkurfrétta að hún væri að hætta þar sem hún er að taka við nýju starfi í Brussel í Belgíu seinna í haust. Helga María Finnbjörnsdóttir tekur við oddvitahlutverkinu af Valgerði.
Arnar Páll Guðmundsson, formaður Viðreisnar á Suðurnesjum segir í viðtali við mbl.is að samkvæmt hans skilningi sé Bein leið ekki að fara að bjóða fram næsta vor.
Helga María segir að ekki sé búið að taka neina ákvörun um framtíð Beinnar leiðar og segir Arnar ekki eiga neina aðkomu að Beinni leið.
Arnar segir segir að hluti af fólkinu í Beinni leið hafi verið að starfa fyrir Viðreisn, m.a. fyrir síðustu þingiskosningar en Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi var einn af stofnendum Beinnar leiðar og var oddviti þess í tvö kjörtímabil í Reykjanesbæ.
Arnar segir við mbl.is að það sé pressa frá stjórn Viðreisnar að bjóða fram undir merkjum flokksins víða um land, m.a. í Reykjanesbæ í fyrsta sinn.
Helga María Finnbjörnsdóttir, varabæjarfulltrúi segist spennt að taka við sem oddviti Beinar leiðar.
„Ég er þakklát og spennt fyrir það tækifæri að taka sæti sem bæjarfulltrúi. Það hefur verið lærdómsríkt að starfa sem varabæjarfulltrúi á þessu kjörtímabili og nú hlakka ég til að leggja mitt af mörkum af fullum krafti í bæjarstjórn. Ég vil áfram vinna að þeim áherslum sem Bein leið hefur lagt fram og fylgja eftir því góða starfi sem Valgerður hefur unnið í bæjarstjórn. Ég vona að reynsla mín og áherslur geti nýst vel í þeim verkefnum sem framundan eru á kjörtímabilinu,“ segir Helga María en Bein leið hefur verið eitt þriggja framboða sem hefur verið í meirihlutassamstarfi Framsóknar og Samfylkingar í Reykjanesbæ undanfarin tvö kjörtímabil og þar á undan með Samfylkingu og Frjálsu afli.