Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Kostnaður við gervigrasvöll í Suðurnesjabæ hefur rokið upp
Séð yfir íþróttasvæðið í Sandgerði.
Þriðjudagur 2. september 2025 kl. 10:38

Kostnaður við gervigrasvöll í Suðurnesjabæ hefur rokið upp

Mikil jarðvinna, klapparskerðingar og allt að tveggja metra háir stoðveggir skýra hækkunina

Kostnaður við að reisa nýjan gervigrasvöll á Sandgerðisvelli í Suðurnesjabæ hefur hækkað stórlega á tveimur árum. Samkvæmt nýju minnisblaði frá VSÓ ráðgjöf fyrir Suðurnesjabæ, dagsettu 19. ágúst 2025, er áætlaður heildarkostnaður metinn á 750–775 milljónir króna eftir því hvor af tveimur útfærslum er valin. Til samanburðar var kostnaður við sambærilegt verkefni áætlaður á bilinu 425–662 milljónir króna árið 2023. Valkostur um gervigrasvöll í Garði var ekki skoðaður sérstaklega í þessu minnisblaði VSÓ ráðgjafar.

Jarðvinna og klapparskeringar draga kostnað upp 

Meginástæða hinnar miklu hækkunar er umfangsmikil jarðvinna og meðferð á klöpp. Í báðum útfærslum þarf að grafa niður allan núverandi jarðveg undir vellinum, samtals um 9.600 rúmmetra, og endurnýta nothæfa fyllingu.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Í tillögu 1, þar sem hæðin miðast við vallarhús, þarf að grafa völlinn niður um allt að 2,2 metra. Þá þarf að skera í klöpp um 5.800 rúmmetra, verkþáttur sem einn og sér nemur 87 milljónum króna.

Í tillögu 2, þar sem miðað er við hæsta punkt vallarins í suðausturhorni, hækkar völlurinn um allt að tvo metra við vallarhúsið. Þar minnkar þörfin á klapparskeringu (um 200 rúmmetra), en í staðinn þarf að bæta við 15.900 rúmmetrum af fyllingu, sem er verulegur kostnaðarliður.

Í báðum tilvikum þarf að byggja stoðveggi í kringum völlinn, á bilinu 0,5–2,0 metrar á hæð, sérstaklega við íþróttavallarhúsið og æfingasvæðin.


Útfærslur til skoðunar 

  • Tillaga 1: Völlurinn skerst inn í mönina austan megin og liggur neðar en núverandi stúka. Kostnaður við þessa tillögu: um 775 m.kr.
  • Tillaga 2: Völlurinn hækkaður við mön, sem skapar meiri fyllingarvinnu en minni klapparskerðingu. Kostnaður við þessa tillögu: um 750 m.kr.

Heildarverkefnið 

Auk jarðvinnu og klapparskerðinga felur framkvæmdin í sér fráveitu- og vökvunarlagnir, snjóbræðslukerfi undir gervigrasi og malbikuðum svæðum, nýtt gervigras með púða, flóðlýsingu með fjórum 21 metra möstrum, girðingar og nýtt tæknirými.

Helstu kostnaðarliðir í tillögunum eru:

  • Jarðvinna og klapparskering: 155 m.kr.
  • Snjóbræðslu- og hitakerfi: 87 m.kr.
  • Gervigras og frágangur: 106 m.kr.
  • Rafkerfi og flóðlýsing: 112 m.kr.
  • Stoðveggir og yfirborðsfrágangur: 128 m.kr.

Kostnaður hækkað um tugi prósenta á tveimur árum

Árið 2023 var sambærilegur völlur metinn á bilinu 425–662 milljónir króna. Nýju áætlanirnar sýna því 25–75% hækkun á tveimur árum.

Sveitarfélagið þarf nú að taka afstöðu til þess hvor útfærslan henti betur – að grafa völlinn niður með miklum klapparskeringum eða hækka hann með stoðveggjum og umfangsmiklum fyllingum. Hvort tveggja er kostnaðarsamt og krefst nákvæmrar hönnunar áður en ákvörðun verður tekin. 


Hvar liggur kostnaðaraukningin?

Ef kostnaðaráætlun við gervigrasvelli í Garði og Sandgerði, sem birt var 1. nóvember 2023, er hækkuð eingöngu með verðlagsþróun (byggingarkostnaðarvísitala hefur hækkað um 10–15% frá lokum 2023 til sumars 2025), þá væri staðan í dag:


Garður – uppreiknað 2025

Grunnáætlun 2023: 509 m.kr.

Uppfært: 560–585 m.kr.

Neðri/efri vikmörk: 505–760 m.kr.


Sandgerði – (gamla áætlunin) uppreiknað 2025 

runnáætlun 2023: 472 m.kr.

Uppfært: 520–545 m.kr.

Neðri/efri vikmörk: 468–706 m.kr.


Sandgerði – nýjar tillögur 2025

Tillaga 1 (niðurgröftur og klapparskering, allt að 2,2 metrar): 775 m.kr.

Tillaga 2 (hækka völlinn, fyllingar allt að 15.900 m³): 750 m.kr.

Ef aðeins er tekið mið af verðlagsþróun, væru bæði Garður og Sandgerði í dag á bilinu 520–585 milljónir króna.

Nýju útfærslurnar í Sandgerði setja hins vegar kostnaðinn 150–200 milljónum hærra, fyrst og fremst vegna jarðvinnu, klapparskeringa og stoðveggja.


Kostnaðarsamsetning

Jarðvinna og klapparskerðingar eru stærstu einstöku verkþættirnir. 

Í tillögu 1 nemur þessi liður 155 m.kr., þar af 87 m.kr. vegna klapparskeringa. 

Í tillögu 2 er klapparvinna minni (um 3 m.kr.), en í staðinn eykst fyllingarkostnaður umtalsvert, í 95 m.kr.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25