Samkomulag um Sindragarð í Njarðvík samþykkt
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt drög að samkomulagi milli sveitarfélagsins og Frímúrarastúkunnar Sindra um skrúðgarðinn í Njarðvík, svokallaðan Sindragarð.
Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs sem haldinn var 24. júlí. Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, mætti á fundinn til að fara yfir málið.
Samkomulagið var samþykkt samhljóða með fjórum atkvæðum, en Guðbergur Reynisson vék af fundi við afgreiðslu liðarins. Bæjarráð fól Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur, starfandi bæjarstjóra, að undirrita samkomulagið fyrir hönd sveitarfélagsins.