Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Líkur á eldgosi aukast en óvissa um tímasetningu
Frá síðasta eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni. VF-mynd: Ísak Finnbogason
Fimmtudagur 4. september 2025 kl. 19:22

Líkur á eldgosi aukast en óvissa um tímasetningu

Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram og hefur hraði söfnunarinnar verið stöðugur undanfarið. Niðurstöður líkanreikninga áætla að nú hafi safnast um 6 til 7 milljón rúmmetrar af kviku undir Svartsengi frá síðasta gosi sem hófst 16. júlí. Það magn kviku sem hljóp úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi í því eldgosi er áætlað um 12 milljón rúmmetrar.  Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Miðað við reynslu af eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni er gert ráð fyrir að líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi aukist þegar um það bil jafn mikið magn af kviku hefur safnast aftur undir Svartsengi og hljóp þaðan í atburðinum á undan. Ef horft er til síðasta atburðar þýðir þetta að þegar 12 milljón rúmmetrar hafi bæst við undir Svartsengi ættu líkur á nýjum atburði að aukast. Þessu rúmmáli verður náð í seinni hluta september ef hraði kvikusöfnunar helst áfram stöðugur.  

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona

Reikna þarf með nýju eldgosi en óvissa um mögulega tímasetningu á því er töluverð 

Það sem er samt mikilvægt að hafa í huga er að ef horft er til eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni frá því í mars 2024 má sjá að það magn kviku sem hlaupið hefur úr Svartsengi í hvert skipti er nokkuð breytilegt eða frá 12 milljónum upp í 31 milljón rúmmetra. Óvarlegt er því að gera ráð fyrir að næsti atburður hagi sér eins og sá síðasti.  Gera þarf ráð fyrir því að síðasti atburður gæti hafa verið óvenjulegur í þessari röð eldgosa sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni hvað varðar það magn kviku sem þurfti að safnast saman undir Svartsengi til að koma að stað eldgosi. Reynslan af síðustu atburðum hefur einnig sýnt að hraði söfnunarinnar þarf ekki að breytast mikið svo að tímasetning á næsta mögulega eldgosi breytist um nokkrar vikur. Óvissan í tímasetningu á næsta atburði er því töluverð og núverandi kvikusöfnunartímabil getur dregist á langinn. 

Kvikusofnun-undir-Svartsengi_4_sept_2025

Myndin sýnir kvikusöfnunartímabil á Sundhnúksgígaröðinni frá því í október 2023. Frá því í mars 2024 fram að eldgosinu í júlí 2025 höfðu kvikusöfnunartímabilin verið að lengjast.

Vöktun og viðbragð miðast við að eldgos gæti hafist hvenær sem er 

Líkanreikningar Veðurstofunnar gefa ákveðna vísbendingu um hvenær líkur aukast á næsta atburði, en vöktun og viðbragðsáætlanir miða við það að eldgos gæti hafist hvenær sem er. 

Ef til eldgoss kæmi er líklegasti upptakastaðurinn á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Merki um að eldgos sé yfirvofandi er smáskjálftavirkni og merki um skarpa breytingu í aflögun sem sést á , ljósleiðara og GPS mælum sem og breyting á þrýstingi í borholum. Reikna þarf með að fyrirvari á eldgosi verði stuttur líkt og í fyrri atburðum, en þá hefur fyrirvarinn verið frá 20 mínútum upp í rúma 4 tíma. 

Áfram talin nokkur hætta á og við nýju hraunbreiðuna 

Hættumat hefur verið uppfært og gildir til 16. september nema ef breyting verður á virkninni.  

Breytingin frá fyrra hættumati er sú að stærð svæðis C, Vogar  hefur verið breytt. Þar af leiðandi er hætta af jarðfalli ofan í sprungur ekki lengur tilgreind fyrir þetta svæði. Nýja hraunbreiðan er áfram í flokknum nokkur hætta (gulur litur).  

2025-09-02_haettumatskort_VI

Áfram unnið að greiningu og túlkun virkni í Krýsuvík 

Skjálftavirkni heldur áfram vestur af Kleifarvatni en Krýsuvík og nærliggjandi svæði eru sögulega þekkt fyrir jarðskjálftavirkni en virknin síðustu misseri tengist einkum gikkskjálftum vegna kvikuinnskotanna undir Fagradalsfjalli og Sundhnúk. Í Krýsuvík mælist nú landsig. Svæðið hefur áður sýnt sveiflur þar sem land rís eða sígur, sem tengjast jarðhitakerfinu og mögulega kvikuhreyfingum neðanjarðar, en eftir að eldgos hófust við Svartsengi í júlí 2023 hefur sigið orðið hraðara en áður hefur mælst. Unnið er að frekari greiningu á virkninni, en engin gögn benda til þess að kvika sé að færast nær yfirborði í Krýsuvík.  

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25