Hefur vantað stöðugleika
segir Haraldur Guðmundsson, þjálfari Lengjudeildarliðs Keflvíkinga
„Við viljum sýna að við erum stóra liðið í Reykjanesbæ,“ segir Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Keflavíkur en hans menn mæta grönnunum í Njarðvík á heimavelli sínum, HS Orku-vellinum, á laugardag á Ljósanóttinni. Halli getur ekki ímyndað sér annað en stúkan verði stútfull og veit að ekkert nema sigur kemur til greina svo hans menn nái að enda á meðal fimm efstu liða Lengjudeildarinnar.
Viðtalið sem birtist í Ljósanæturblaði Víkurfrétta, var tekið degi áður en Keflvíkingar mættu ÍR í sannkölluðum sex stiga leik en fyrir leikinn var ÍR jafnt HK með 34 stig en Keflavík með 31 stig. Því miður tapaði Keflavík leiknum en blessunarlega fyrir þá tapaði HK líka og því er ennþá von um að enda á meðal fimm efstu liðanna en lið 2-5 spila umspil um hitt lausa sætið í Bestu deildinni að ári. Keflvíkingar verða að vinna báða sína leiki og fá alvöru próf á heimavelli sínum á laugardaginn, mæta þá grönnunum úr Reykjanesbæ og hefst leikurinn kl. 16.
Í viðtali fyrir mótið lýsti Haraldur yfir að markmið Keflvíkinga var að vinna deildina og fara beint upp í Bestu deildina, þeir voru nærri því í fyrra en töpuðu svo úrslitaleik um hitt lausa sætið á Laugardalsvelli gegn Aftureldingu.
„Ef markmið okkar var að vinna deildina þá má alveg halda fram að tímabilið til þessa séu vonbrigði en það er stutt á milli í þessu, einn sigur til eða frá og við erum í allt annarri stöðu. Þetta tímabil hefur verið upp og niður, það hefur vantað stöðugleika í okkar leik, inn á milli frábærar frammistöður en síðan dottið niður á slæmt plan.“
Getur ekki beðið eftir grannaslagnum
„Veðrið spilar auðvitað inn í en ég get ekki ímyndað mér annað en stúkan verði þéttsetin. Bærinn fyllist af Keflvíkingum og Njarðvíkingum og ég hvet hér með alla brottflutta til þess að mæta á Keflavíkurvöll og verða vitni að þessum stórleik.“