Erum ekki að missa flugið
segir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Lengjudeildarliðs Njarðvíkinga
„Tja, missa flugið, það er djúpt í árina tekið finnst mér þegar við vorum búnir að spila sautján leiki án þess að tapa. Ef þessir tveir leikir sem við töpuðum væru spilaðir tíu sinnum þá vinnum við þá oftar en ekki, ef mið er tekið af allri tölfræði leikjanna,“ segir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Lengjudeildarliðs Njarðvíkur í viðtali sem var tekið áður en Ljósanæturblað Víkurfrétta var prentað en Njarðvíkingar mættu Leikni á heimavelli á meðan prentvélin var að malla og vannst sigur í þeim leik, 3-1 og Njarðvíkingar áfram í harðri baráttu um að vinna Lengjudeildina og komast þar með beint upp í Bestu deildina. Njarðvík er í öðru sæti með 40 stig, stigi á eftir Þrótti Reykjavík. Síðustu tveir leikir Njarðvíkur eru sannkallaðir Suðurnesjaslagir, þeir mæta grönnunum úr Reykjanesbæ í „el classico“ á Ljósanóttinni, n.t. á laugardag kl. 16, fá svo Grindvíkinga í lokaumferðinni.
Þrátt fyrir stuttan þjálfaraferil er Gunnar Heiðar eldri en tvæ vetur í bransanum og hefur ekki teljandi áhyggjur af tveimur tapleikjum í röð.
„Ef að lið er búið að spila fyrstu sautján leiki móts án þess að tapa, tapar svo tveimur leikjum í röð, ef þetta flokkast undir að missa flugið þá er það hæpin skýring að mínu mati. Ég sem þjálfari sem rýni mikið í alla tölfræði eftir leikina, sé á blaði að þessi töp voru ekki í takti við gang leiksins. Á móti Þórsurum í síðasta leik vorum við t.d. með boltann 67%, áttum fleiri skot og vorum einfaldlega ofar í öllum tölfræðiþáttum, líka í hinni athyglisverðu XG-tölfræði [vænt skoruð mörk], það eina sem vantaði en öllu máli skiptir, mörk létu á sér standa. Mér fannst við gefa fyrstu tvö mörkin og þetta var einfaldlega einn af þessum leikjum. Í leiknum á móti Þrótti var svipað uppi á teningnum, Þróttarar áttu þrjú skot á markið og skoruðu þrjú mörk. Við erum búnir að núllstilla okkur eftir þessi tvö töp og mætum fullir sjálfstrausts í þá þrjá leiki sem eftir eru. Ef við spilum okkar leik erum við besta liðið í þessari deild en hún er galin, það er í raun ekkert lið sem siglir lygnan sjó. Sex lið að keppast í efri hlutanum, við og tvö önnur lið um að vinna deildina, hin og Keflavík að keppa um að komast í umspilssætin. Lið sjö til tólf öll að berjast fyrir lífi sínu svo það er enginn leikur „göngutúr í garðinum.“ Við ætlum okkur að klára þessa deild og vinna hana, náum okkur vonandi aftur á strik á móti Leikni en svo er þetta viðtal fyrir stórleikinn á Ljósanóttinni og þann leik ætlum við að vinna, svo einfalt er það.“
Vonbrigði ef ekki verður uppselt
Gunnar Heiðar á ekki von á öðru en bekkurinn verði þétt setinn þennan laugardag á HS Orku-vellinum í Keflavík.
„Það var mjög góð mæting á leik liðanna í Njarðvík og ég trúi ekki öðru en uppselt verði á þennan leik, tala nú ekki um fyrst hann hittir á sjálfa Ljósanæturhelgina. KSÍ reynir að setja leiki á þegar bæjarhátíðir eru, við fengum Ljósanæturleikinn í fyrra og því eðlilegt að Keflavík fái leikinn í ár en að Ljósanæturliðin séu að mætast hlýtur að flokkast undir einkar heppilega tilviljun annað árið í röð. Það er auðvitað margt í boði þessa helgi en ég er viss um að fólk mun þyrpast á völlinn. Þetta er einn af þeim leikjum sem ekki þarf mikið til að mótivera leikmenn, ég ætti að geta skilið hárþurrkuna eftir heima,“ sagði Gunnar Heiðar að lokum.