Krambúðinn 4-7 sept
Krambúðinn 4-7 sept

Mannlíf

Ferð til Liverpool stendur upp úr
Fimmtudagur 4. september 2025 kl. 06:15

Ferð til Liverpool stendur upp úr

„Ég spilaði slatta golf, fór í bústað og svo skruppum við Binni til Parísar. Hápunkturinn var nú samt kannski strax í byrjun sumars, þegar við Binni fórum ásamt fleiri Liverpool-aðdáendum og sáum okkar menn lyfta Englandstitlinum, sturluð stemmning svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ segir Anna María Sveinsdóttir en hún svaraði nokkrum laufléttum Ljósanætur- og sumarspurningum Víkur-frétta.

„Það var æðislegt að koma til Parísar, við vorum að fara þangað í fyrsta skipti en svo eru sumrin mest samvera með fjölskyldunni, heiti potturinn er óspart notaður. Okkur þykir yndislegt að fá barnabörnin í heimsókn og grilla.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Við spiluðum talsvert golf og hef ég náð að lækka forgjöfina talsvert og það er auðvitað gaman. Veðrið var óvenjugott og það kom kannski mest á óvart, ég man ekki eins marga daga í logni í Leirunni.

Ég á ekki neinn uppáhaldsstað á Íslandi en þeir eru margir mjög fallegir. Ég á eftir að fara á Vestfirðina, geri það pottþétt einhvern daginn.

Þetta sumar verður lengi í minnum haft en upphafið á því má segja að hafi byrjað í frábærri ferð til Liverpool, að sjá okkar menn lyfta Englandsmeistaratitlinum. Við vorum mætt snemma í borgina og það var magnað að sjá stemninguna og við tókum líka skrúðgönguna á mánudeginum, þvílík stemning.“

Anna María er mikil Ljósanæturkona og reynir að sækja sem flesta viðburði og engin breyting verður á því í ár.

„Mér finnst Ljósanótt alltaf mjög skemmtileg og gaman hvað bæjarbúar og þeir sem eru brottfluttir eru duglegir að taka þátt og láta sjá sig. Ég ætla á tónleikana í Holtunum heima, árgangagönguna og svo einhverjar sýningar en er ekki alveg búin að taka þetta allt út. Ef ég á að minnast á eitthvað eftirminnilegt frá öllum þessum Ljósanóttum, er það fyrstu tónleikarnir sem við vorum með í Holtunum heima, það var svo geggjað veður og sjúklega góð stemning, tónleikarnir endaðu með fallegum norðurljósum og flugeldasýningu, algjörlega geggjuð minning.

Við vinkonurnar förum á okkar fimmtudagsrölt, kíkjum á sýningar og fáum okkur að borða og drekka hjá Steina á hótelinu, á föstudeginum eru það svo tónleikarnir í Holtunum heima, að sjálfsögðu er það svo morgunmaturinn hjá Keflavík/karfan á laugardeginum áður en farið er í árgangagönguna, laugardagskvöldið er venjulega súpa hjá Höddu og Sigga með góðu fólki, þetta er svona það helsta og svo er bara þessi samvera með sínu fólki, börnum og barnabörnum. Ég hlakka mikið til komandi Ljósanætur,“ sagði Anna María að lokum.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25