Þar sem bærinn okkar lifnar við og vinir og fjölskylda koma saman
Styrmir Geir Jónsson er tæknilegur öryggisstjóri Landsnets, sem þýðir að hann sér um netöryggisvarnir Landsnets. Þrátt fyrir þetta tókst honum ekki að verjast tölvuskeyti frá blaðamanni Víkurfrétta sem vildi vita hvernig sumarið hafi verið og hvernig komandi Ljósanótt legðist í kappann.
„Við hjónin verjum nánast alltaf sumarfríinu okkar hér heima á Íslandi og þá helst að skoða landið okkar vítt og breitt á jeppanum okkar. Við sofum í bílnum með tjald sem tengist honum við afturhlera. Við eltum oft sólina, en njótum okkar best upp á hálendinu þar sem við leggjum mikið upp úr að skoða eitthvað nýtt á hverju sumri auk þess að heimsækja uppáhaldsstaðina okkar aftur og aftur,“ segir Styrmir Geir þegar hann er spurður út í sumarið 2025.
Hvað stóð upp úr?
„Tíu daga ferð um landið sem endaði í Skaftafelli í 25+ stiga hita, upplifunin var eins og að ver á Majorka þar sem við sátum við Svartafoss og kældum okkur í fersku köldu vatninu ásamt fjölda erlendra ferðamanna“.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
„Ég verð nú að segja að veðrið hafi komið á óvart, kannski reiknum við Íslendingar bara með því að það sé alltaf rok og rigning, en þetta var einmuna sumar held ég.“
Styrmir Geir á sér marga uppáhalds staði til að heimsækja innanlands. Ásbyrgi og Hljóðaklettar eru þeirra á meðal. „Þar var einmuna blíða í sumar og alltaf gott að koma“.
Er eitthvað sérstakt á verkefnalistanum fyrir komandi vetur?
„Að verkefnum sumarsins loknum, sem oft snúast um að bæta og viðhalda gamla timburhúsinu okkar, þá eru verkefni vetrarins mest vinnutengd, en skíðaiðkun kemur svo sterk inn ásamt því að fara upp á hálendi Íslands að miðjum vetri þar sem vetrarparadís bíður“.
Styrmi Geir finnst Ljósanótt frábær og segist alltaf hlakka til hennar.
„Þar sem bærinn okkar lifnar við og vinir og fjölskylda koma saman og njóta þeirra viðburða sem í boði eru, já og félagsskapar hvors annars“.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
„Sem flesta. Grunar að það verði kíkt á röltið á fimmtudagskvöldinu og verslað eitthvað. Kíkt á tónleika, listasýningar, auðvitað á laugardeginum á árgangagönguna og svo viðburði kvöldsins bara til að nefna pínulítið“.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
„Þessi er erfið því þær eru margar minningarnar, en ætli það sé ekki frá árdaga Ljósnætur þegar börnin voru lítil og vera með þeim á flugeldasýningunni og horfa upp á undrun þeirra og kátínu á að sjá flugeldana“.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?
„Við höfum alveg frá byrjun boðið öllum vinum og kunningjum í opið hús hjá okkur á laugardeginum. Erum með mat, gos og snarl allan daginn ásamt smá brjóstbirtu. Og svo er oft smá teiti eftir flugeldasýninguna“.