Askja opnar dyrnar að nýrri starfsstöð í Reykjanesbæ
Allt fyrir bílinn undir sama þaki.
Bílaumboðið Askja mun opna nýja og glæsilega starfsstöð að Njarðarbraut 11 í Reykjanesbæ laugardaginn 13. september. Með þessari fjárfestingu fær svæðið heildstæða þjónustu þar sem allt fyrir bílinn er undir sama þaki: sölu- og þjónustudeild fyrir Mercedes-Benz, smart, Kia og Honda, auk hjólbarðaþjónustu hjá systurfélaginu Dekkjahöllinni, segir í frétt frá Öskju.
„Þetta er spennandi áfangi fyrir svæðið,“ segir Jón Halldór Eðvaldsson, sölustjóri Öskju í Reykjanesbæ. „Við erum að koma með sterka blöndu af þjónustu undir eitt þak – sölu á nýjum og notuðum bílum, ráðgjöf, viðgerðir og reglubundna þjónustu – ásamt allri dekkjaþjónustu. Þetta er mikilvæg fjárfesting sem mun efla þjónustu við bæði einstaklinga og fyrirtæki hér á svæðinu. Sjálfur hlakka ég til að styrkja tengslin við samfélagið og viðskiptavini sem ég hef áður átt góð samskipti við.“
Askja Reykjanesbæ og Dekkjahöllin blása til opnunarhátíðar laugardaginn 13. september kl. 12–16.
Gestum verður boðið upp á nýbakaðar vöfflur, ís og kaffi, ásamt því að skoða hina glæsilegu aðstöðu og hitta starfsfólkið.
„Ég hlakka til að sjá sem flesta, sýna nýju aðstöðuna og spjalla við gamla og nýja kunningja,“ bætir Jón Halldór við.