Preppbarinn býður upp á hollasta skyndibitann
„Viðskiptavinurinn getur fylgst með á skjá hvernig næringargildin í hans máltíð breytast,“ segir Karel Ólafsson, annar eigenda Preppbarsins en fyrir þá sem ekki þekkja til, þá býður Preppbarinn upp á hollan skyndibita, þann hollasta vilja sumir meina. Karel og Birgi Halldórssyni, meðeiganda hans, fannst vanta hollan mat inn á skyndibitamarkaðinn sem er risastór, Karel var í námi í NTV (Nýji tölvu- og viðskiptaskólinn) þegar þeir fengu hugmyndina, lokaverkefnið fjallaði um stofnun fyrirtækis sem býður upp á hollan mat og hér eru þeir í dag, staddir í Reykjanesbæ, að opna þriðja staðinn síðan í febrúar 2022. Preppbarinn hefur komið sér fyrir á Hafnargötu 90, þ.e. í portinu baka til.
Preppbarinn hóf rekstur seint á árinu 2019 en flestir vita hvað gerðist nokkrum mánuðum síðar, í byrjun var samt öðruvísi rekstur í gangi.
„Nei, ég er ekki kokkur eða næringarfræðingur, ég er stemningsmaður. Ég fékk hugmyndina þegar ég var í námi í NTV, mér fannst vanta hollan skyndibita á markaðinn og við Birgir ákváðum að kasta okkur út í djúpu laugina og náðum strax góðum sundtökum í henni. Við byrjuðum með heimsendingarþjónustu en nokkrum mánuðum síðar skall covid á en það breytti okkur engu því við vorum hvort sem er í heimsendingarþjónustu en vorum þá komin í samkeppni við aðra staði. Okkur gekk strax vel og við sáum að það var sylla á markaðnum og fórum að huga að opnun staðar og opnuðum þann fyrsta í febrúar 2022, á Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Opnuðum svo í júlí á Vesturlandsvegi og erum nú komin til Reykjanesbæjar og hlökkum til samskipta við Suðurnesjafólk og aðra gesti.“
Hollur skyndibiti
Allt sem Preppbarinn býður upp á er hollt, hið minnsta eins lítið óhollt og hugsast getur.
„Við erum t.d. með sætar kartöflur í stað venjulegra, kjúklingur er vinsæll sem kjöt en við erum líka með annað kjöt og sósurnar eru jógúrt sósur. Svona verður máltíðin hitaeiningasnauðari en mikið af skyndibita er djúpsteiktur og þ.a.l. ekki hollur. Kúnninn okkar sér á skjá hversu margar hitaeiningar hann er að fara innbyrða, allt er viktað fyrir framan kúnnann og hann getur valið úr mörgum tegundum grænmetis, hrísgrjóna og kjöts, hvað fer í hans máltíð. Viðskiptavinurinn sér hvernig næringargildin breytast eftir því hvað fer í máltíðina og getur því fylgst vel með hvað hann er að fara setja ofan í sig. Máltíðin getur farið í box, vefju eða salat og allar sósur eru úr jógúrt, sem er hollasta skyndibitasósan á markaðnum. Við gerum út á hollustu og erum stolt af því að bjóða upp á þennan möguleika í skyndbita. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar, við höfum vaxið stöðugt síðan við opnuðum fyrsta staðinn á Suðurlandsbrautinni og ef við höldum svona áfram munum við opna víðar en byrjum á að koma okkur vel fyrir í Reykjanesbæ,við hlökkum til að taka á móti Suðurnesjamönnum og öðrum. Við munum bjóða 50% afslátt opnunarhelgina, allir velkomnir. Til að byrja með verðum með veitingastað en viljum þróa okkur út í fyrirtækjaþjónustu, munum þá bjóða upp á sendingu til fyrirtækjanna,“ sagði Karel að lokum.