Verslanir Ísland Duty Free verða innblásnar af íslenskri náttúru
Ísland Duty Free mun á næstunni hefja framkvæmdir vegna endurhönnunar á komu- og brottfararverslunum sínum á Keflavíkurflugvelli, sem unnin er í nánu samstarfi við hönnunarteymi Heinemann og íslensku arkitektastofuna Basalt arkitekta. Nýja hönnunin sækir innblástur í dramatískt landslag Íslands – mótað af jöklum, hrauni og síbreytilegu umhverfi.
Markmiðið með endurhönnun er að skapa spennandi umgjörð utan um íslenskar vörur og verslunarupplifun þar sem viðskiptavinir finna fyrir því að þeir eru staddir á Íslandi þar sem umhverfi og innréttingar endurspegla íslenska náttúru, segir í tilkynningu frá Ísland Duty Free.
Í miðju verslannna verða staðsettir þriggja metra háir skúlptúrar, um 200 kg að þyngd sem minna á ísjaka í jökullóni í umgjörð sem tekur mið af öðrum sérkennum íslenskrar náttúru. Skúlptúrinn er hannaður í samstarfi við Basalt arkitekta og framleiddur með 3D-prenttækni og er alfarið úr endurunnu plasti.
„Samstarfið við Basalt gefur okkur tækifæri til að skapa eitthvað einstakt – umhverfi sem endurspeglar íslenska náttúru og gerir versluanrupplifun í Ísland Duty Free skemmtilega og áhugaverða,“ segir Hanna Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri vörusviðs hjá Ísland Duty Free.
„Það mun ekki fara fram hjá nokkrum sem verslar í þessu umhverfi að hann er staddur á Íslandi og íslenskum vörum verður gert sérstaklega hátt undir höfði“.
„Íslenska náttúran gegnir lykilhlutverki í framtíðarsýn Heinemann og er leiðarljós við endurhönnun verslana Ísland Duty Free á Keflavíkurflugvelli. Frá upphafi lá fyrir mikilvægi þess að íslenskar vörur fái að njóta sín í hjarta verslunarinnar“ segir Hróflur Cela, arkitekt og meðeigandi hjá Basalt arkitektum. „Það hefur verið afar skemmtilegt að taka þátt í þessu metnaðarfulla verkefni þar sem áhersla er lögð á ánægjulega upplifun viðskiptavina og mikla tengingu við íslenska náttúru á metnaðarfullan hátt.
Endurhönnunin fer fram í áföngum næstu mánuði og hefjast framkvæmdir í komuverslun þann 18. ágúst n.k. og viku síðar í brottfararverslun. Allar vörur og þjónusta verða áfram í boði meðan á framkvæmdum stendur. Stefnt er að því að framkvæmdum verði að fullu lokið í júní 2026.