Stuðlaberg Pósthússtræti
Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Kanna áhuga á lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara á Víkingaheimasvæðinu
Hugmyndin gerir ráð fyrir lífsgæðakjarnanum á óbyggða svæðinu upp af Víkingaheimum. Umhverfis- og skipulagsráð tekur málið fyrir í næstu viku. VF/Hilmar Bragi
Fimmtudagur 14. ágúst 2025 kl. 06:00

Kanna áhuga á lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara á Víkingaheimasvæðinu

Vilja byggja 100 herbergja hjúkrunarheimili og sex fjölbýlishús á reitnum

Funaberg fasteignafélag leggur til uppbyggingu á nýjum lífsgæðakjarna í Tjarnahverfi/Víkingaheimum í samstarfi við Reykjanesbæ. Verkefnið miðar að því að sameina búsetu, heilbrigðisþjónustu, heilsurækt og samveru fyrir íbúa 60 ára og eldri. Greinargerð um framkvæmdina var lögð fyrir skipulagssvið Reykjanesbæjar í ársbyrjun. Minnisblað kom svo inn á borð bæjarráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku þar sem skipulagshluta málsins var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs sagði í samtali við Víkurfréttir að málið verði tekið til afgreiðslu 22. ágúst næstkomandi.

Margrét Þórarinsdóttir, fulltrúi Umbótar, bókaði um fyrirhugaða uppbyggingu á fundi bæjarráðs og lagði áherslu á að ráðstöfun á verðmætu byggingarsvæði við Víkingaheima krefjist opins og gagnsæs ferlis. Hún mótmælti því að málinu yrði vísað til umhverfis- og skipulagsráðs án slíks ferlis og taldi óásættanlegt að ráðstafa svæðinu án útboðs.

Margrét A. Sanders, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, tók undir mikilvægi opins ferlis en lagði áherslu á að vísa einungis þeim hluta málsins til umhverfis- og skipulagssviðs sem snýr að breytingum á aðalskipulagi. Hún vill að litið verði á Fitjarnar í heild sinni sem eina af útivistarperlum bæjarins.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Lífsgæðakjarnar eru hugsaðir sem húsnæði sem bætir lífsgæði þeirra sem eru komnir á seinna æviskeiðið, með áherslu á aukið öryggi, félagslega tengingu og nýtingu nærumhverfisins. Hugmyndin felur í sér fjölbreytta búsetu, þar á meðal þjónustu- og hjúkrunaríbúðir, hjúkrunarheimili og almennar íbúðir, auk sameiginlegra rýma sem hvetja til samveru.

Samkvæmt greinargerðinni sem lögð var fram í byrjun árs er áætlað að nýta hluta lóðar Víkurheima og hluta lands Reykjanesbæjar. Hugmyndin gerir ráð fyrir 100 herbergja hjúkrunarheimili, fjölbýlishúsi fyrir 60 ára+ á allt að fjórum hæðum og fimm tveggja hæða fjölbýlishúsum með átta íbúðum hvert, fyrir almenna markaðinn eða starfsemi tengda lífsgæðakjarnanum.