Stuðlaberg Pósthússtræti
Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

45 ár frá fyrstu Víkurfréttum á prenti
Fimmtudagur 14. ágúst 2025 kl. 06:10

45 ár frá fyrstu Víkurfréttum á prenti

Víkurfréttir fagna þann 14. ágúst 45 ára afmæli frá útgáfu fyrsta tölublaðsins árið 1980. Blaðið hefur alla tíð verið í forystuhlutverki á Suðurnesjum og skipað sér í fremstu röð meðal bæjar- og héraðsfréttablaða á landinu.

Upphafið árið 1980

Fyrsta tölublað Víkurfrétta kom út 14. ágúst 1980 og var þá gefið út af Prentsmiðjunni Grágás í Keflavík. Fyrstu árin var útgáfutíðnin hálfsmánaðarleg fram til ársloka 1982. Dreifing fór fram í verslunum og þjónustufyrirtækjum, en fljótlega var komið á beinni dreifingu inn á heimili í Keflavík og Njarðvík. Í Höfnum sá Jón Borgarsson og fjölskylda um að koma blaðinu á öll heimili í mörg ár.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Nýtt félag og vikuleg útgáfa

Um áramótin 1982–1983 keypti nýstofnað félag, Víkurfréttir ehf., útgáfuna og hóf vikulega útgáfu í mars 1983. Prentun og umbrot var áfram í höndum Grágásar, en með tilkomu tölvutækni færðist hönnun og uppsetning smám saman yfir til starfsmanna Víkurfrétta. Árið 1995 birtist fyrsta stafræna ljósmyndin á forsíðu blaðsins, og árið 1999 var prentun flutt til Odda þar sem blaðið varð fyrsta prentmiðillinn á Íslandi til að skila PDF-skjölum í prentun.

Litprentun og tæknibylting

Á tíunda áratugnum hófst litprentun á hluta blaðsins, en með auknum kröfum auglýsenda um lit og styttri framleiðslutíma var ljóst að hraðari prentun var nauðsynleg. Samstarfið við Odda leiddi til nýrra vinnubragða og meiri sveigjanleika í framleiðslu.

Nýtt útlit og dagblaðapappír

Stærsta breytingin á útliti blaðsins varð í apríl 2011 þegar skipt var úr glanspappír yfir á dagblaðapappír og prentun flutt til Landsprents. Þannig jókst hagræðing og prentunin færðist í stærstu og öflugustu prentvél landsins, sömu vél og prentar Morgunblaðið.

Leiðandi á landsvísu

Víkurfréttir hafa alla tíð verið stærsta frétta- og auglýsingablað Suðurnesja. Blaðið hefur ekki aðeins haldið forystu á sínu svæði heldur einnig verið leiðandi meðal héraðsfréttablaða á landsvísu.

Forsíða fyrsta tölublaðs Víkurfrétta þann 14. ágúst 1980.