Alþjóðlegt bifreiðafyrirtæki kaupir Öskju og tengd fyrirtæki
Vekra ehf. hefur undirritað samning um sölu á öllu hlutafé í Bílaumboðinu Öskju, Unu, Dekkjahöllinni og Landfara til alþjóðlega bílafyrirtækisins Inchcape sem sérhæfir sig í sölu og dreifingu á bifreiðum á heimsvísu og er skráð í kauphöllina í London. Dekkjahöllin opnaði nýlega á Fitjum í Njarðvík og Askja opnar þar bílasölu á næstunni.
Gert er ráð fyrir að afhending félaganna fari fram í september. Jón Trausti Ólafsson verður áfram forstjóri og mun vinna með nýjum eigendum að áframhaldandi vexti og þróun félaganna.
Askja hefur á síðustu áratugum verið með þjónustu og umboð fyrir vörumerki á borð við Mercedes-Benz, smart, Honda og Kia, en Kia er söluhæsta bílategund landsins á þessu ári. Systurfélagið Una bætti á síðasta ári XPENG við stækkandi vöruframboð samstæðunnar auk þess sem systurfélögin Dekkjahöllin og Landfari hafa orðið leiðandi í sérhæfðri þjónustu og lausnum fyrir bílaeigendur og fyrirtæki hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu
„Inchcape er leiðandi og óháður alþjóðlegur dreifingar- og söluaðili bifreiða með yfir 150 ára sögu og hefur verið skráð í kauphöllina í London síðan 1958. Hjá fyrirtækinu starfa meira en 16.000 manns á 38 mörkuðum um allan heim. Þannig sameinar Inchcape alþjóðlega sýn með staðbundinnni sérþekkingu á hverju markaðssvæði sem skilar sér í framúrskarandi þjónustu og árangri fyrir samstarfsaðila og auknum gæðum og betri upplifun viðskiptavina,“ segir í tilkynningunni.