BM VALLÁ opnar nýja steypustöð á Suðurnesjum
Ný steypustöð BM Vallár í Reykjanesbæ verður tekin í notkun í haust. Með stöðinni eykur fyrirtækið enn frekar þjónustu sína við byggingariðnaðinn á Suðurnesjum ásamt því að styðja við þá miklu uppbyggingu sem framundan er á svæðinu, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Við höfum lengi fengið hvatningu og ábendingar frá samstarfsaðilum og áhugasömum aðilum um að koma okkur fyrir á Suðurnesjum og nú svörum við því kalli. Við sjáum mikla möguleika í framtíðarþróun á svæðinu og hlökkum til að taka þátt í uppbyggingunni með fyrsta flokks vistvænni steypu, framúrskarandi þjónustu og öflugri afkastagetu.“ segir Emil Austmann Kristinsson, framkvæmdastjóri sölusviðs BM Vallár.
HÁÞRÓUÐ FRAMLEIÐSLUTÆKNI
Nýja steypustöðin mun auka umtalsvert þjónustustigið við byggingariðnaðinn á Suðurnesjunum. Stöðin, sem kemur frá þýska framleiðandanum Nisbau, er hönnuð með áherslu á gæði, skilvirkni og háþróaða framleiðslutækni. Þessi nálgun er í samræmi við stefnu BM Vallár, sem er með vottað ISO 9001 gæðastjórnunarkerfi og hefur nýlokið vottun á ISO 45001 heilbrigðis- og öryggisstjórnunarkerfi.
UMHVERFISMÁL Í FARARBRODDI
Sjálfbærni og umhverfismál eru lykilþættir í starfsemi BM Vallár og er steypustöðin hönnuð með tilliti til jákvæðari umhverfisáhrifa og hringrásarlausna. Í stöðinni er endurvinnslustöð sem kemur til með að endurvinna afgangssteypu og allt skolvatn sem fellur til úr framleiðslunni. Með því verður hægt að endurnýta hráefnin að fullu í framleiðsluferlinu ásamt því að að engin óæskileg úrgangsefni fara í fráveitukerfið.
Stöðin er útbúin hitunarkerfi, gufukatli, sem gengur bæði fyrir dísilolíu og metangasi frá Sorpu, sem er hluti af hringrásarhagkerfinu og bætir nýtingu úrgangs ásamt því að vera umhverfisvænni orkugjafi.
Berglind, vistvænni steypa, er hluti af vöruframboði fyrirtækisins og verður hægt er að fá hana með allt að 45% minna kolefnisspori samanborið við hefðbundna steypu (skv.kröfu byggingarreglugerðar).
FRAMKVÆMDIR Á LOKASPRETTINUM
Síðustu mánuði hefur staðið yfir jarðvinna og steypuframkvæmdir á svæðinu, þar sem búið er að steypa gólfplötu, sex efnishólf og undirstöður fyrir vigtarband og síló.
Ný steypustöð BM Vallár í Reykjanesbæ mun í haust þjónusta viðskiptavini í Keflavík, Njarðvík, Höfnum, Sandgerði, Garði, Vogum ásamt Hafnarfirði. Stöðin er á Ásbrúarsvæðinu, að Ferjutröð 11.