Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Reykjanesbær og Suðurnesjabær samþykkja stefnu um starfsmannaíbúðir
Þriðjudagur 19. ágúst 2025 kl. 09:43

Reykjanesbær og Suðurnesjabær samþykkja stefnu um starfsmannaíbúðir

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti á dögunum nýja sameiginlega stefnu Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um starfsmannaíbúðir og gistimöguleika starfsmanna á framkvæmdasvæðum. Stefnan, sem VSÓ ráðgjöf vann í maí 2024, á að bregðast við mikilli fólksfjölgun og húsnæðisskorti á Suðurnesjum á undanförnum árum.

Í skýrslunni kemur fram að íbúum á Suðurnesjum hafi fjölgað um tæp 31% á sjö árum, mest í Reykjanesbæ og á Ásbrú. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu hefur ekki tekist að halda í við eftirspurn, sérstaklega eftir litlum íbúðum og tímabundnu húsnæði fyrir starfsfólk ferðaþjónustu og mannvirkjagerðar. Húsnæðisskortur bitnar bæði á íbúum og atvinnulífi, þar sem erfitt hefur reynst að hýsa starfsfólk.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Stefnt að varanlegum lausnum

Markmið stefnunnar er að tryggja að:

  • Á Suðurnesjum verði nægt húsnæði fyrir öll sem þar vilja búa og starfa.
  • Flestir sem starfa á svæðinu hafi þar fasta búsetu.
  • Uppbygging verði innan núverandi þéttbýlismarka, með áherslu á nálægð við verslun, þjónustu og almenningssamgöngur.
  • Starfsmannabúðir, sem ekki uppfylla kröfur byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, verði aðeins nýttar tímabundið og í undantekningartilfellum.

Í stefnunni er lögð áhersla á uppbyggingu á litlum íbúðum og deilihúsnæði sem getur nýst nýaðfluttu starfsfólki, en jafnframt stutt við þéttbýlisþróun og jafnvægi á húsnæðismarkaði. Tímabundnar starfsmannabúðir verða fyrst og fremst leyfðar við stærri framkvæmdir fjarri þéttbýli eða þegar brýn þörf krefur vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis.

Skipulag og aðgerðir

Stefnan felur í sér að sveitarfélögin beini húsnæðisuppbyggingu að miðsvæðum og íbúðarsvæðum, hraði uppbyggingu smærri íbúða og deilihúsnæðis, og haldi tímabundnum starfsmannabúðum í lágmarki.

Auk þess er gert ráð fyrir skýrum tímamörkum og viðurlögum í lóðasamningum, svo tryggt sé að tímabundið húsnæði verði fjarlægt þegar verkefnum lýkur.

Samþykkt stefnunnar gefur sveitarfélögunum sameiginlegt verkfæri til að bregðast við húsnæðisþörf atvinnulífsins, styðja við atvinnuuppbyggingu og bæta aðgengi íbúa að öruggu og heilnæmu húsnæði.