Gera þurfi ráð fyrir hættu vegna sjávarflóða
Fjölgun íbúða úr 40 í 58 og nýtingarhlutfall hækkar verulega
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur ákveðið að fresta breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnargötu 12. Ráðið fjallaði á fundi sínum 8. ágúst um tillögu JeES arkitekta að breytingu á skipulaginu. Breytingin gerir ráð fyrir að húsið verði að hámarki með kjallara, þrjár hæðir og ris, en íbúðum fjölgi um 18, úr 40 í 58.
Samkvæmt tillögunni hækkar nýtingarhlutfall ofanjarðar úr 1,0 í 1,8, en samanlagt ofan- og neðanjarðar úr 1,8 í 2,64. Auglýsingartíma tillögunnar er lokið og bárust engar formlegar athugasemdir en þó nokkrar umsagnir hafi borist, meðal annars frá Veðurstofu Íslands sem vekur athygli á aukinni hættu vegna flóða.
Veðurstofa Íslands vekur athygli á aukinni hættu vegna sjávarflóða við fyrirhugaða uppbyggingu á Hafnargötu 12 í Keflavík. Í umsögn um breytingu á deiliskipulagi reitsins, þar sem áform eru um íbúðahús með allt að 58 íbúðum auk verslunar- eða þjónusturýma á jarðhæð, er bent á að svæðið sé nærri flóðasvæði þar sem öldugangur hefur áður valdið tjóni.
Veðurstofan rifjar upp atburð frá 14. febrúar 2020 þegar brim gekk yfir varnargarð við Ægisgötu, grjót og mulningur bárust á land og sjór flæddi yfir bílastæði og inn í jarðhæðir og kjallara húsa við Hafnargötu. Þjónn á veitingastaðnum Ránni lýsti því að vatn í kjallaranum hefði náð sér í miðja kálfa.

Svæði neðan Hafnargötu umflotið í sjó eftir flóðið 14. febrúar 2020. Sjór náði starfsmanni á Ránni upp á miðja kálfa, segir í umsögn Veðurstofunnar.
Sjávarstaða hækkar og land sígur
Í umsögninni er bent á að samkvæmt sviðsmyndum Vísindanefndar um loftslagsbreytingar gæti sjávarstaða á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 41–59 sentimetra til loka aldarinnar og um 68–115 sentimetra til ársins 2150. Þar sem verulegt landsig mælist á Reykjanesi – áætlað hálfur metri til 2100 og nær metri til 2150 – mætti bæta þeirri tölu við spár fyrir svæðið.
Veðurstofan segir að gera þurfi ráð fyrir hættu vegna sjávarflóða þegar skipulag á svæðinu er ákveðið, sérstaklega í ljósi þess að byggðin sé hugsuð til langs tíma.
Þá séu engar upplýsingar í deiliskipulagstillögunni um landhæð, gólfkóta eða hvort farið hafi verið eftir leiðbeiningum Vegagerðarinnar um skipulag á lágsvæðum.
Einnig sé mikilvægt að huga að mögulegri styrkingu fráveitu og brimvarna við Ægisgötu. Svæðið geti orðið fyrir áhrifum jarðskjálfta og loftborinna efna frá eldgosum á Reykjanesskaga, en eldgosavá teljist þó ekki takmörkun á landnotkun á reitnum.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur ákveðið að fresta breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnargötu 12. Ráðið fjallaði á fundi sínum 8. ágúst um tillögu JeES arkitekta að breytingu á skipulaginu.