Björgunarbátasjóður Suðurnesja á von á nýju björgunarskipi
Búið að afhenda fimm ný skip, smíði þess áttunda er hafin, Sigurvon númer tólf í röðinni
„Núverandi skip er komið á aldur og ekki seinna að vænna en hefja fjáröflun vegna nýsmíðinnar,“ segir Tómas Logi Hallgrímsson, formaður björgunarbátasjóðs Suðurnesja sem er rekinn af Björgunarsveitunum Sigurvon í Sandgerði og Björgunarsveitinni Suðurnes í Reykjanesbæ. Skip sveitanna er komið á aldur og því er söfnun fyrir nýju skipi að fara af stað en árið 2017 byrjaði Slysavarnarfélagið Landsbjörg að leggja drög að endurnýjun flotans á landsvísu. Samið var við finnsku skipasmíðastöðina KewaTec og er búið að afhenda fimm ný skip til Íslands. Smíði þess áttunda er komið af stað en Suðurnesjasveitirnar eru númer tólf í röðinni.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg á og rekur þrettán stór björgunarskip sem staðsett eru út um allt land og sjá björgunarsveitir í viðkomandi bæjarfélagi um rekstur skipsins og að manna til að sinna útköllum á sjó á hafsvæðinu við Ísland. Félagið hefur rekið björgunarskip í einni eða annarri mynd allt frá árinu 1928, þegar Slysavarnafélag Íslands var stofnað.
Eldri björgunarskipin voru keypt af Konunglegu bresku sjóbjörgunarsamtökunum (RNLI) en algengt er að endurnýja skip á fimmtán ára fresti. Ef þau eru notuð lengur er skipt um tækjabúnað en aldrei eru skipin notuð lengur en 30 ár. Elstu skipin á Íslandi eru komin á hámarksaldur og önnur nálgast þann aldur óðfluga og því hófst verkefnið árið 2017, að endurnýja allan flotann. Á vordögum 2019 lauk vinnu við skýrslu aðgerðaráætlunar um endurnýjun björgunarskipa og árið 2021 var gert samkomulag við Dómsmála- og Fjármálaráðuneytin um helmingsfjármögnun skipanna. Smíði fyrstu skipanna hófst það ár og ári síðar var það fyrsta afhent, til Vestmannaeyinga. Síðan þá hafa fjögur verið afhend en nýju skipin eru finnsk og heita Rescue 1700 frá KewaTec. Finnarnir hafa tuttugu ára reynslu í smíði slíkra skipa sem hafa reynst afar vel.

Hannes Þ. Hafstein
Skipið í Sandgerði sem ber nafnið Hannes Þ. Hafstein, er heldur betur komið til ára sinna, var smíðað árið 1985 og fagnar því 40 ára afmæli á þessu ári en Suðurnesjasveitirnar eru númer tólf í röðinni. Tómas segir að það veiti ekki af að hefja söfnun strax.
„Búið er að semja um smíði skips númer átta en við erum númer tólf í röðinni og það þýðir að við ættum að fá okkar skip í hendurnar eftir 3-5 ár. Gangurinn í þessu hjá Finnunum hefur verið sá að skip er afhent u.þ.b. ári eftir að smíðin hefst og því ættum við að fá nýtt skip árið 2030 í síðasta lagi ef tímalínur standast. Nýtt skip kostar um 350 milljónir og samningurinn er þannig að ríkið borgar helming, Landsbjörg ¼ og viðkomandi björgunarbátasjóður þarf að standa skil á síðasta fjórðungnum. Hafa ber í huga að þessi söfnun er fyrir utan hefðbundnar fjáraflanir sveitanna, eins og flugeldasölu um áramótin, þær fjáraflanir fara í að reka björgunarsveitirnar á ársgrundvelli. Núna þurfum við að setjast niður og skipuleggja hvernig við munum sækja þessa fjármuni en við munum þurfa að reiða okkur á framlag fyrirtækja og ég vona að útgerðir, jafnt stórar sem smáar, muni taka okkur vel en svona björgunarskip er jú mest í þjónustu við sjómenn. Mér skilst á öðrum björgunarsveitum sem eru komin með sín skip, að róðurinn hafi verið erfiður við að safna peningnum og þess vegna ákváðum við hjá björgunarbátasjóðnum að hefjast strax handa. Hálfnað verk þá hafið er segir einhvers staðar en það er algerlega kominn tími á að endurnýja Hannes Þ. Hafstein. Viðhaldið á honum hefur verið dýrt að undanförnu en þessi nýju skip eru miklu betri skip, með tvær öflugar Scania vélar og ganga allt að 32 hnúta (60 km) á klst á móti 14, geta borið allt að 60 manns í ýtrustu neyð en skipið er skráð fyrir 40 manns og vel mun fara um sex áhafnarmeðlimi. Með fullri virðingu fyrir núverandi Hannesi sem hefur þjónað okkur mjög vel, þá verður frábært að taka nýja skipið í notkun en það eru einhver ár í það og ekki seinna að vænna en hefja fjáröflunina strax í dag,“ sagði Tómas að lokum.



