Stuðlaberg Pósthússtræti
Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Ráðast í stórframkvæmdir við fráveitu í Reykjanesbæ
Föstudagur 15. ágúst 2025 kl. 06:00

Ráðast í stórframkvæmdir við fráveitu í Reykjanesbæ

Reykjanesbær hefur sett af stað víðtæka aðgerðaáætlun í fráveitumálum sem á að tryggja hreinni strandlengju og bæta vatnsgæði í bænum. Áætlunin nær til ársins 2031 og felur í sér lokun mengandi útrása, uppbyggingu nýrra hreinsistöðva og umfangsmiklar endurbætur á núverandi kerfum.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs nýverið kynnti Aron Heiðar Steinsson veitustjóri verkefnið, sem m.a. miðar að því að draga úr saurkólígerlamengun sem hefur greinst við strendur sveitarfélagsins. Gögn úr rauntímamælum í smábátahöfn hafa sýnt að vatnsgæði skerðast á ákveðnum tímum, sérstaklega við útrásina í Grófinni.

Lífrænar hreinsistöðvar og lokun útrása

Á árinu 2025 verður sett upp lífræn hreinsistöð af gerðinni HIPAF í Höfnum, sem mun stórbæta hreinsun fráveituvatns áður en því er veitt í sjó. Á næsta ári verður útrásin í Grófinni í Keflavík alfarið lokuð, og fráveituvatni þar í stað beint í nýtt meðhöndlunarferli. Dælubrunnur við Hólmbergsbraut verður jafnframt endurnýjaður til að tryggja öryggi í miklu álagi.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Stærsta framkvæmdin verður bygging nýrrar miðlægrar skólphreinsistöðvar í Helguvík, Helga WWTP, sem hefst árið 2027 og verður tekin í notkun 2029. Stöðin mun sjá um hreinsun fyrir allt að 12.000 íbúa í fyrstu, með möguleika á stækkun til framtíðar. Hún byggir á líffræðilegri hreinsun með möguleika á þriðja stigs hreinsun, UV-sótthreinsun og nýtingu seyru í lífgasframleiðslu.

Árið 2031 verður síðan hafist handa við að bæta annars stigs lífræna hreinsun við Fitjabrautarstöð. Mælingar síðustu ára sýna að svifagnir og lífræn efni í útrás frá stöðinni eru yfir viðmiðunarmörkum Umhverfisstofnunar, og kallar það á endurbætur.

Umhverfis- og skipulagsráð fagnaði framkominni aðgerðaráætlun og lagði ríka áherslu á að tryggja fjármagn til að hún verði að fullu framkvæmd. Með áætluninni er stefnt að heildstæðu, sjálfbæru og framtíðarþolnu fráveitukerfi sem dregur úr líkum á mengun og styður við markmið bæjarins um hreinni strendur og bætt lífríki.