Stuðlaberg Pósthússtræti
Stuðlaberg Pósthússtræti

Íþróttir

Njarðvík tryggir stöðu sína á toppi Lengjudeildarinnar
Miðvikudagur 13. ágúst 2025 kl. 23:20

Njarðvík tryggir stöðu sína á toppi Lengjudeildarinnar

Njarðvíkingar tryggðu sér dýrmæt þrjú stig og þar með stöðu sína  í toppbaráttu Lengjudeildarinnar með 2-1 sigri á Fjölni í Dalhúsum í kvöld. Sigurinn þýðir að liðið heldur áfram að tróna á toppi deildarinnar þegar styttist í lokasprettinn.

Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill og báðum liðum gekk illa að skapa sér hættuleg færi. Varnarleikur var í forgrunni og staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Á 56. mínútu fengu Njarðvíkingar loks verðlaun fyrir þrautseigjuna. Svavar Örn Þórðarson átti glæsilega sendingu frá hægri inn á fjær þar sem Oumar Diouck skallaði boltann að marki. Sigurjón Daði, markvörður Fjölnis, varði í fyrstu en Diouck fylgdi vel á eftir og skoraði af stuttu færi, 0-1.

Fjölnismenn svöruðu fljótt og jöfnuðu metin á 64. mínútu með marki Árna Steins Sigursteinssonar eftir hornspyrnu. Leikurinn opnaðist í kjölfarið og bæði lið reyndu að sækja sigurmarkið. Það var hins vegar Njarðvík sem fór með sigurinn heim þegar Dominik Radic skoraði á 78. mínútu eftir slæmt útspark Fjölnis og fast skot í fjærhornið tryggði Njarðvíkingum 2-1 forystu.

Á lokakaflanum sóttu heimamenn hart en Njarðvík hélt út með skipulögðum varnarleik og baráttu. Lokatölur urðu 2-1 og styrkja Njarðvíkingar þar með stöðu sína á toppi Lengjudeildarinnar.

Njarðvík er með 37 stig á toppi deildarinnar, fjórum stigum meira en Þór sem er í öðru sæti. Keflvíkingar eru í sjötta sæti með 28 stig og þriðja Suðurnesjaliðið, Grindavík, í því áttunda með 17 stig.