Halla bauð körfuknattleikslandsliðinu til veislu í Leifsstöð
„Mér var ljúft og skylt að bjóða strákunum okkar í landsliðinu upp á góða máltíð áður en þeir héldu af landi brott. Það verður gaman að fylgjast með þeim á Eurobasket. Ég styð auðvitað mín lið í Grindavík, reyni að mæta á leiki og mun reyna sjá landsliðið í sjónvarpinu,“ segir Halla María Svansdóttir, eigandi hjá Höllu. Halla frétti af því að landsliðið væri að halda af landi brott og bauð þeim á stað sinn í Leifsstöð. Voru landsliðsmenn og fylgdarfólk himinlifandi og tók hópurinn hraustlega til matar síns áður en hoppað var í flugvél Icelandair.
Eins og körfuknattleiksunnendur vita er landliðið á leiðinni í lokakeppni Eurobasket en mótið er haldið í nokkrum löndum í Evrópu og hefst 27. ágúst. Ísland mun keppa í Póllandi og er von á mörgum Íslendingum til að styðja sína menn í mótinu.
Þrír Suðurnesjamenn eru í þrettán manna hópnum sem fór til Portó í Portúgal til að leika tvo æfingaleiki, Njarðvíkingarnir Elvar Már Friðriksson og Kristinn Pálsson, og Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson.
Leikirnir fara fram í Braga og verða báðir leikirnir í beinni útsendingu á RÚV2.
Fimmtudagur 14. ágúst: Svíþjóð – Ísland kl. 19:30 á Rúv 2
Föstudagur 15. ágúst: Portúgal – Ísland kl. 19:30 á Rúv 2
