Grindavík/Njarðvík og Keflavík með tapleiki
Grindavík/Njarðvík tapaði fyrir Haukum með einu marki gegn tveimur í leik liðanna í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var í Njarðvík.
Haukar komust yfir á 18. mínútu með marki Ágústu Maríu Valtýsdóttur. Danai Kaldaridou jafnaði fyrir Grindavík/Njarðvík úr víti á 66. mínútu. Haukar stálu svo sigrinum með marki Höllu Þórdísar Svarnsdóttur á 88. mínútu.
Grindavík/Njarðvík er í þriðja sæti deildarinnar með 26 stil. ÍBV er á toppnum með 34 stig og HK í öðru sæti með 31 stig.
Keflavík sótti HK heim í Kópavoginn í gærkvöldi í Lengjudeild kvenna og tapaði 4:2.
Ísabel Rós Ragnarsdóttir skoraði fyrsta mark HK strax á fjórðu mínútu. Þá hrökk Keflavíkurvélin í gang og þær Emma Kelsey Starr og Elfa Karen Magnúsdóttir skoruðu mörk Keflavíkur, Emma á 12. mínútu og Elfa á þeirri 24. Ísabel Rós Ragnarsdóttir var aftur á ferðinni fyrir HK skömmu fyrir leikhlé og jafnaði leikinn, 2:2.
Klara Mist Karlsdóttir skoraði þriðja mark HK á 48. mínútu og Anna Arnardóttir, markvörður Keflavíkur, er skráð fyrir fjórða marki HK á 89. mínútu.
Keflavík er í 8. sæti deildarinnar með 15 stig. Liðið hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum liðsins.