Hundrað nýir Ljósálfar lýsa Strandleiðina
Nýir ofursterkir ljósastólpar hannaðir og framleiddir hjá Íslandshúsum á Ásbrú munu lýsa upp Strandleiðina í Reykjanesbæ
„Það er ánægjulegt að bæjarfélagið skuli vera í samstarfi við frumkvöðlafyrirtæki á svæðinu. Ljósálfur er glæsilegur ljósastöpull, hannaður og framleiddur í Reykjanesbæ og mun leysa af hólmi ljós sem voru sett upp þegar 11 km. strandleiðin opnaði fyrir fimmtán árum síðan,“ segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar.
Nýja ljósið sem mun lýsa upp Strandleiðina er hannað og framleitt af fyrirtækinu Íslandshús sem hefur verið með aðsetur á Ásbrú í þrettán ár. Fyrirtækið er þekkt fyrir forsteyptar einingar úr steypu til margs konar nota, m.a. svokallaða Dverga sem eru undirstöður undir sólpalla, girðingar, garðhús og fleira. Öll hönnun er gerð í þrívídd og framleiðslan á svæði fyrirtækisins á Ásbrú.
Hönnun og framleiðsla á heimaslóðum
Íslandshús er fjölskyldufyrirtæki feðganna Óskars og Brynjars Húnfjörð og þeir segja Ljósálfinn fyrst hafa verið kynntan á sýningunni Verk og vit í Laugardalshöllinni 2024. Þar vakti hann strax mikla athygli.
Ljósálfur var hannaður og þróaður í samstarfi við Reykjanesbæ sérstaklega með það í huga að þola og geta staðið af sér veðurálag við Strandleiðina í Reykjanesbæ. Þar eru krefjandi aðstæður sem ljósastólpinn þarf að standast, eins og sjógang, salt, snjó og frost. Á gönguleiðinni voru upphaflega settir stólpar sem þurfti að endurnýja.
Notagildi og langtíma ending
„Það var hugsað til notagildis og langtíma endingu við hönnun Ljósálfs. Hann er 60 sm. á hæð og er gerður úr ofursteypu eða hertri steypu sem er hrærð úr sérstakri steypublöndu sem er þróuð að Aalborg Portland í Danmörk. Hún er fjórum sinnum sterkari en hefðbundin sökkulsteypa. Við fluttum inn sérstaka steypuhrærivél til verkefnisins og hönnunin krafðist sérsmíðaðra stálmóta sem gerð eru í verksmiðju Íslandshúsa.
Lýsingin er auðvitað aðalatriðið en ekki síður að það kæmi lítil ljósmengun frá honum en Ljósálfurinn beinir ljósinu niður á stíginn og svo er gat í gegnum hann svo það kemur ljósskíma frá honum að aftan og bjarmar upp grjótið í garðinum fyrir aftan hann. Hann er ótrúlega sterkbyggður og frágangurinn á lýsingunni er líka þannig að það eru minni líkur á því að hún geti verið skemmd. Stólpinn kemur tilbúinn frá okkur með innbyggðum tengikassa og LED ljósabúnaði sem er hannaður í samstarfi við Hildiberg ljósahönnun. Síðast en ekki síst er svo merki bæjarfélagsins framan á honum sem sést vel í lýsingunni í myrkri. Þessi framkvæmd er skemmtilegt dæmi um góða samvinnu við viðskiptavininn sem við eigum fleiri dæmi um,“ segja þeir Óskar og Brynjar.
Stoltir af Ljósálfum í Reykjanesbæ
Íslandshús mun í byrjun framleiða eitthundrað Ljósaálfa fyrir bæinn, en þegar hafa verið settir upp um sextíu. Framleiðslan er nokkuð tímafrek sem og uppsetning og frágangur á Strandleiðinni en þeir feðgar eru mjög ánægðir með árangurinn og segjast stoltir af framkvæmdinni sem hafi verið unnin í mjög góðu samstarfi við starfsmenn Reykjanesbæjar.
Lokaframkvæmdir við uppsetningu sextíu Ljósálfa standa yfir. Hér má sjá hvernig lýsingin kemur út, séð úr lofti í drónamynd. VF/hilmarbragi.
Á myndinni að neðan eru f.v.: Brynjar Húnfjörð og Óskar Húnfjörð frá Íslandshúsum, Aron Steinsson, veitustjóri hjá Umhverfis- og framkvæmdasviði Reykjanesbæjar og Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfissviðs. VF/pket.