Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Mannlíf

Emmsjé Gauti tók síðasta viðlagið með Birki Frosta í söngvakeppni þjóðhátíðar
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 3. september 2025 kl. 06:15

Emmsjé Gauti tók síðasta viðlagið með Birki Frosta í söngvakeppni þjóðhátíðar

Birkir Frosti Kjartansson er ungur og upprennandi söngvari sem hefur búið í Reykjanesbæ alla sína ævi en á ættir að rekja til Vestmannaeyja. Þar sem Eyjamenn eru annálaðir söngfuglar má leiða líkur að því að það spili inn í áhuga hans á söng en hann vann söngvakeppnina á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár. Hann söng lagið Klisja eftir rapparann Emmsjé Gauta og hafði ekki hugmynd um að Emmsjé væri að fara troða upp á eftir sér. Þegar Birkir Frosti renndi í síðasta viðlagið var átrúnaðargoðið mætt á sviðið með honum og kláraði lagið með honum. Emmsjé hrósaði pilti í hástert, sem hafði látið hækka tóntegundina á laginu svo það hentaði honum betur. Þetta var í þriðja skiptið sem Birkir Frosti tók þátt í söngvakeppninni og hér sannaðist að „allt er þegar þrennt er.“

Tenging Birkis Frosta við Vestmannaeyjar er talsverð en báðir foreldrarnir, Kjartan Már Gunnarsson og Elísa Birkisdóttir, eru Eyjafólk. Föður langafi og -amma Birkis flúðu Vestmannaeyjar í gosinu ´73 en langafinn er þekktur í íþróttasögu Keflavíkur og Suðurnesja, knattspyrnuþjálfarinn og íþróttakennarinn góðkunni Kjartan Másson. Móðurafi Birkis Frosta en piltur er skírður í höfuðið á honum, daðraði við listagyðjuna en hann lék á saxófón með hljómsveitinni Sjöund, sem gerði lagið um Pípuna ódauðlegt á sínum tíma.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Þjóðhátíð hefur alltaf verið stór partur af lífi fjölskyldunnar, sem er alltaf með hvítt tjald og blessunarlega voru þau með sitt fyrir miðju á þjóðhátíðinni ár, það var vel fest niður svo það var ekki í hættu á fyrsta kvöldinu en þá lék allt á reiðiskjálfi í Herjólfsdal. Birki Frosta leist ekki á blikuna.

„Við vorum mætt snemma í dalinn og fyrsta kvöldið var skrýtið, það voru miklu færri í brekkunni en venjulega út af veðrinu en dagskráin á stóra sviðinu hélt sér. Leiðinlegt fyrir listafólkið sem kom fram, að hafa bara nokkur hundruð í brekkunni í stað kannski tuttugu þúsund eins og venjulega er. Tjaldið okkar var ekki í hættu en pabbi og þeir fullorðnu voru að hjálpa öðrum, sum tjöld voru bara tekin niður, það var alveg brjálað veður. Söngvakeppnin fer alltaf fram á laugar- og sunnudeginum og ég var á laugardeginum. Þá var komið gott veður og mér gekk mjög vel, söng lagið Klisja eftir Emmsjé Gauta og fékk gullverðlaun í undankeppninni en það voru margir mjög góðir að syngja og ég horfði líka á sunnudeginum. Það var búið að segja okkur að hringt yrði í sigurvegarann kl. fimm á sunnudeginum og við vorum öll stödd í íbúðinni okkar og einhverjir gestir í heimsókn, þegar sími mömmu hringdi og hún kannaðist ekki við númerið. Allir höfðu hljótt á meðan mamma kláraði símtalið og mikil fagnaðarlæti brutust út þegar hún var búin að skella á! Þetta var í þriðja skiptið sem ég keppti, var fyrst fyrir fjórum árum, þá níu ára gamall en komst ekki inn ári seinna en keppti í fyrra og í ár. Við vorum einmitt á leiðinni frá Eyjum á Goslokahátíðinni þegar tilkynning um að hægt væri að skrá sig til leiks, kom inn á heimasíðu þjóðhátíðar, dalurinn.is og bara hægt að sækja um þá. Við pössuðum okkur að vera í góðu netsambandi og sem betur fer komst ég inn.“

Óvænt ánægja á stóra sviðinu í Herjólfsdal

Það hefði ekki þurft að hringja í fjölskyldu Birkis Frosta til að biðja þau um að vera mætt tímanlega í dalinn svo Birkir gæti flutt sigurlagið, hefð er hjá þeim eins og mörgum Eyjamönnum, að borða kvöldmatinn í hvíta tjaldinu á sunnudagskvöldinu. Þegar að stóru stundinni kom hafði Birkir ekki hugmynd um að höfundur lagsins sem hann söng, væri að fara troða upp.

„Ég var ofboðslega glaður þegar síminn hringdi hjá mömmu, það er gaman að vinna þessa söngvakeppni og ég var mjög spenntur að flytja sigurlagið. Ég veit ekki hversu margir voru komnir í Brekkuna þegar ég flutti sigurlagið, kannski u.þ.b. tíu þúsund. Ég hafði ekki hugmynd um að Emmsjé væri að fara syngja og því kom mér rosalega á óvart þegar hann var kominn á sviðið með mér og söng síðasta viðlagið með mér. Ég hefði ekki getað óskað mér að þetta hefði gengið betur, þetta var fullkomið. Þegar við vorum búnir að syngja lagið sagði Emmsjé að ég syngi lagið betur en hann, ég var búinn að láta hækka tóntegundina svo hentaði mér betur, það var gaman að heyra þetta frá Emmsjé,“ segir Birkir Frosti.

Söngur, leikur og dans

Birkir Frosti hefur starfað með Ungleikhúsinu og Leikfélagi Keflavíkur, tók þátt í uppfærslu á Annie og Jólasögu og í vetur fer hann í stærra leikhús, mun taka þátt í Skoppu og Skrítlu sem verður sett upp hjá Borgarleikhúsinu fyrir jól. Hann tók vel í hugmynd blaðamanns með að læra á gítar fyrst hann er með svo mikið Eyjablóð í sér.

„Ég er að fara í sjöunda bekk í grunnskóla og hef því fjögur ár til að ákveða hvað ég vil læra eftir það. Kannski að ég haldi áfram í því sem mér þykir skemmtilegast, að syngja, leika og dansa. Ég er búinn að vera í Ungleikhúsinu undanfarin ár og var í Flórída þegar HM í dansi var svo ég átti ekki möguleika að taka þátt í því. Ég fór í prufu í Borgarleikhúsinu vegna Skoppu og Skrítlu og var valinn, hlakka mikið til að leika með Jóhönnu Guðrúnu, Páli Óskari og fleirum en söngleikurinn verður frumsýndur fyrir jól.

Ég mun pottþétt halda áfram að syngja og fyrst ég hef svona gaman af því þá myndi ég örugglega hafa gaman af því að geta spilað á hljóðfæri, eigum við ekki bara að segja að ég fari að læra á gítar sem fyrst,“ sagði þessi bráðefnilegi söngfugl að lokum.

Í spilaranum má sjá viðbrögð Birkis og fjölskyldunnar við símtalinu og flutning kappans á sigurlaginu á sunnudagskvöldinu.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25