Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Mannlíf

Listagyðjan losnaði úr læðingi í stafrænni listsköpun
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 3. september 2025 kl. 06:25

Listagyðjan losnaði úr læðingi í stafrænni listsköpun

„Þegar ég kynntist stafrænni myndlist þá loksins losnaði listagyðjan í mér úr læðingi,“ segir listakonan Kristín Couch. Hún hefur búið í Svíþjóð undanfarin ár og fann þar fjöl sína í listinni en áður en hún og eiginmaður hennar fluttu þangað bjuggu þau í Reykjanesbæ. Hún hefur haldið sýningu á Ljósanótt, n.t. árið 2006 en hefur þróast mikið í sinni list síðan þá og er spennt að koma í ár og sýna hvað hún hefur verið að gera undanfarin ár.

Kristín sem er fædd og uppalin í Reykjavík, skellti sér á ball á sínum tíma í K-húsinu og hitti þar eiginmanninn, Guðmund Þórðarson. Segja má að um ást við fyrstu sýn hafi verið ræða, þau voru fljótlega byrjuð að búa í Keflavík, giftu sig og fjölguðu mannkyninu. Myndlist hafði blundað í henni frá unga aldri en það var ekki fyrr en hún lærði stafræna myndlist sem listagyðjan í henni losnaði almennilega úr læðingi.

„Ég hef alltaf verið að teikna og mála, frá því að ég var ung stelpa. Ég fór í Myndlistaskóla Reykjavíkur, fór á ótal námskeið í alls kyns myndlist en fannst ég aldrei ná að koma listinni frá mér eins og ég vildi. Ég komst nærri því þegar ég bjó heima, þá klippti ég myndir úr blöðum og myndskreytti með akríllitum en svo er það ekki fyrr en árið 2000 þegar straumhvörf verða hjá mér. Ég skráði mig þá í Tölvuskóla Suðurnesja og lærði m.a. á Photoshop og eftir það var ekki aftur snúið. Maðurinn minn gaf mér svo stafræna myndavél og það breytti eiginlega öllu. Upp frá því fór ég líka að vinna sem ljósmyndari, vann um tíma hjá Gamanmyndum sem portrait- og brúðkaupsljósmyndari. Við fluttum síðan út til Svíþjóðar árið 2009 og þá fékk ég vinnu sem innanhússljósmyndari og vann við það í tæp níu ár. Um svipað leyti fór ég í nám í stafrænni myndlist og lærði enn betur á Photoshop og þá opnaðist nýr heimur fyrir mér má segja. Ég ferðaðist um allan Stokkhólm og myndaði íbúðir af öllum stærðum og gerðum og fékk þá oft hugmyndir sem ég gat nýtt í minni listsköpun. Ég gat farið að blanda saman ljósmyndun og listsköpun í tölvunni því ég vinn myndlistina mína í tölvunni, í Photoshop.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn
The Diva.
Hvaðan fær Kristín sinn innblástur?

„Frá lífinu má segja, það eru þessir hversdagslegu hlutir sem oft hreyfa við manni, eins og ég minntist á í ferðalögum mínum sem ljósmyndari. Ég er mjög dugleg að sækja ljósmyndasafnið sem er í Stokkhólmi, það eru reglulega settar upp sýningar þar og þar fæ ég hugmyndir og vinn út frá þeim. Mér finnst líka gott að skoða bækur listmálara eins og Picasso, Monet og fleiri, ég get fengið endalausar hugmyndir á að skoða þeirra list.

Sýningin sem ég hélt á Ljósanótt árið 2006 var ljósmyndasýning, ég var ekki búin að læra þá að nýta mér alla galdra Photoshop, gat bara unnið myndirnar eins og ljósmyndarar gera. Ég hef þróast mjög mikið sem listakona síðan þá því Photoshop opnaði algerlega nýjan heim fyrir mér, loksins gat ég komið á framfæri það sem ólgaði inn í mér sem listakona og ég hlakka mikið til að sýna afraksturinn á Ljósanótt.

Sýningin í ár heitir Milli draums og veruleika, hún sýnir allt sem ég er að gera og skapa, allt frá listsköpun út frá dýrum, ævintýrum og kvennaandlitum en ég hef mikið unnið með kvennaandlit að undanförnu. Sýningin verður í Fichershúsinu á Hafnargötu 2 og ég hlakka mikið til. Ég kem þriðjudaginn 2. september til landsins og sýningin opnar svo fimmtudaginn 4. september kl. 18 og verður fram að sunnudeginum á Ljósanæturhelginni. Að sjálfsögðu verður hægt að kaupa verk á sýningunni, ég kem líka með minni útprentanir sem eru ódýrari og verð með tilboð.

Listaverkin sem ég hef skapað hlaupa á hundruðum og ef ég á að reyna að taka eitt verk út úr, þá er það lítil krúttleg mynd sem ég verð með á sýningunni. Þegar ég var lítil stelpa hafði ég mikinn áhuga á fatahönnun, ég var alltaf að teikna kjóla, ég elskaði og elska enn, öll dýr. Þessi umrædda mynd er af prinsessu í fínum kjól sem er að bjóða öllum dýrunum sínum í veislu, myndin heitir The party. Mér þykir mjög vænt um þessa mynd og verð með hana til sýnis ásamt ótal öðrum myndum. Ég hlakka mikið til að koma á Ljósanótt, hitta fólk og sýna hvað ég hef verið að gera,“ segir Kristín.

Verkið sem Kristín heldur mest upp á, The party.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25