Stafapokar sem efla málþroska og læsi hjá börnum
Æskuvinkonur stofnuðu fyrirtækið Orðablik sem framleiðir málörvunarvörur
„Það er frábært að geta stutt við og eflt málþroska og læsi hjá börnum á Íslandi. Við sjáum fyrir okkur að vörurnar okkar séu góð viðbót við það frábæra starf sem á sér stað í leik- og grunnskólum á Íslandi,“ segja þær Hjördís Hafsteinsdóttir og Ásdís Vala Freysdóttir en þær eru æskuvinkonur og stofnuðu nýlega frumkvöðlafyrirtækið Orðablik og Stafapokinn er afrakstur vinnu þeirra.
Saman hafa þær unnið við að því að þróa og selja skapandi málörvunarvörur sem efla málþroska barna og stuðla að gæðastundum með þeim. Ásdís hefur bakgrunn í sálfræði og Hjördís er talmeinafræðingur.
Hugmyndin að verkefninu kviknaði hjá Ásdísi sem hefur verið búsett erlendis síðustu ellefu ár ásamt eiginmanni og þremur börnum. Markmiðið hennar hefur ávallt verið að börnin alist upp við gott íslenskt málumhverfi. Hjördís kom inn í verkefnið á síðari stigum með hugmyndafræði talmeinafræðings að leiðarljósi. Hugmyndafræði fyrirtækisins snýr að því að nýta sameiginlega menntun og reynslu stofnenda til að hafa jákvæð áhrif á málþroska barna.
Samverustundir barna og foreldra
„Aðal markmiðið er að stuðla að samverustundum fullorðinna og barna. Á sama tíma eru börnin að læra stafina og bæta við sig orðaforða. Pokarnir eru því mjög hentugir fyrir barnafjölskyldur, ekki síst fjölskyldur af erlendum uppruna og íslenskar fjölskyldur sem búa erlendis. Auk þess geta pokarnir nýst vel í starfi talmeinafræðinga og innan leik- og grunnskóla,“ segja æskuvinkonurnar.
Hvernig hefur verkefnið þróast?
„Við erum í stöðugri vöruþróun og eigum von á þremur nýjum vörum núna í lok september. Þá kemur Litapoki, Tölupoki og Klasapoki. Þá fáum við einnig Stafapoka sem eru prentaðir á þykkari pappír sem við sjáum fyrir okkur að muni henta vel í málörvun í leik- og grunnskólum. Svo erum við að vinna að ótrúlega spennandi jólabók sem við sjáum fyrir okkur að gefa út í byrjun nóvember. Bókin er alveg einstök að því leytinu til að í henni er jóladagatal og hún tvinnar saman samverustundir með börnum og góðan orðaforða. Þannig samræmist hún algjörlega markmiðum Orðabliks sem er að stuðla að gæða samverustundum með börnum og efla málþroska.“
Hvað með hönnunina og framleiðsluna?
„Við hönnum allar vörurnar okkar sjálfar. Þær eru svo prentaðar í Kína. Þegar við fáum þær úr prentun þá ‘setjum við vöruna saman’ sem felur í sér að líma franskan límmiða á alla stafina, losa þá í sundur og pakka vörunni.“
Hvernig hafa viðbrögðin verið?
„Viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð og við höfum fengið pantanir frá öllum landshlutum. Við erum mjög spenntar að fá nýju vörurnar og kynna þær fyrir leik- og grunnskóla landsins.
Stafapokinn var upphaflega þróaður til að efla íslenskuna hjá íslenskum börnum sem eru búsett erlendis. Þá gengur þetta auðvitað í báðar áttir og Stafapokinn getur hjálpað erlendum fjölskyldum á Íslandi að ná tökum á tungumálinu. Þannig að við erum alltaf að sjá ný tækifæri þegar kemur að vörunum okkar,“ segja þær Ásdís og Hjördís.