Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Mannlíf

Gleðihormón losna úr læðingi við að fara í kaldan sjóinn
Glæsilegur hópur sjósundkvenna í Bæjarskersfjöru í Sandgerði. VF/hilmarbragi.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 3. september 2025 kl. 06:00

Gleðihormón losna úr læðingi við að fara í kaldan sjóinn

Baujuvaktin tekur sjósundsvaktina á Suðurnesjum og aðstaða víða frábær

„Mér finnst mjög notalegt eftir langan vinnudag að komast í sjósund. Ávinningurinn af því að stunda sjósund er vellíðan, núvitund og góður svefn. Þegar synt eða svamlað er í köldum sjó losar líkaminn um endorfín sem eykur á vellíðan og ekki er síður ánægja sem fylgir því að synda fyrir opnu hafi í Atlantshafinu þegar fuglarnir flögra yfir,“ segir Bylgja Baldursdóttir, félagi í sjósundsfélaginu Baujuvaktin Garðhúsavík - sjósund á Suðurnesjum. Fyrir þremur árum tók hún áskorun Dísu vinkonu sinnar og þær fóru að stunda sjósund reglulega og virkjuðu síðuna Baujuvaktina í Garðhúsavík á Facebook og síðan þá hafa ófá sundtökin verið tekin í sjónum víðsvegar á Suðurnesjum en mest þó út frá Bæjarskersfjöru í Sandgerði, Garðskaga og Þórshöfn.

Bylgja Baldursdóttir, félagi í sjósundsfélaginu Baujuvaktin Garðhúsavík - sjósund á Suðurnesjum.

„Ég er sannfærð um að einhver gleðihormón losna úr læðingi við að fara í kaldan sjóinn, þetta sjokkerar líkamann og eitthvað gott gerist. Ég upplifi mikla núvitund þegar ég fer í sjósund og er sannfærð um kosti og gildi hennar. Það er örugglega hollt að fara í kaldan pott en ég hef ennþá meiri trú á sjósundi því þú getur svamlað og synt og fengið hreyfingu út úr því líka. Ég hef heyrt að þeir sem glíma við ofnæmi hafi gott af sjósundi, að eitthvað í seltunni virki vel á ofnæmið en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.“

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Bylgja og Dísa [Vigdís Elísdóttir] voru ekki þær fyrstu til að synda í sjónum á Suðurnesjum. Guðríður Brynjarsdóttir úr Garði hafði mörg ár á undan svamlað í sjónum en tók félagsskapnum fegins hendi og er þakklát fyrir virkni í starfi Baujuvaktarinnar en hún stofnaði Facebook-síðuna Baujuvaktin í Garðhúsavík fyrir mörgum árum.

Frelsi á opnu hafi innan um fuglana

„Gauja var búin að stunda sjósund í mörg ár án þess að um skipulagða starfsemi hefði verið að ræða en fyrir þremur árum á Vitadögum, bæjarhátíð Suðurnesjabæjar, var kynning á sjósundi í bókasafninu í Sandgerði. Dísa vinkona mín hafði legið í mér að prófa sjósund með sér og við fórum á þessa kynningu. Eftir hana ákváðum við að láta slag standa, kynntumst hópnum og úr varð markviss skipulögð virkni í sjósundinu á Suðurnesjum. Við skipuleggjum sjósundið inni á þessari síðu, fólk merkir við hvort það komist eða ekki og við erum allt frá einu, tveimur upp í 25 að svamla í sjónum í einu. Oftast förum við út frá Bæjarskersfjöru í Sandgerði, það er stutt þaðan í sundlaugina í Sandgerði. Við förum stundum út frá Garðskaga en það er meiri straumur þar en einnig förum við stundum í Þórshöfn sem er milli Stafness og Hafna, þar er gott að fara þegar mikið brim er því Þórshöfnin er í skjóli. Bæjarskersfjaran er afskaplega hentug sandfjara og minnir á strendur erlendis. Í fjörunni er hægt að ganga mjög langt út í sjóinn á sandi áður en allur líkaminn er kominn ofan í sjóinn. Þetta er mjög hentugt því þá nær líkaminn að venjast kuldanum eftir því sem dýpra er farið og þegar sund tekur við er búið að aðlagast og sundið verður þægilegt. Mörgum hryllir við kuldanum en það er magnað hvað líkaminn er fljótur að venjast, strax þegar farið er í annað eða þriðja skipti er sjokkið minna og þetta verður einfaldlega dásamleg stund sem ég mæli hiklaust með að fólk prófi. Mér finnst frábært að komast í sjósund eftir langan vinnudag, vera í nánum tengslum við náttúruna og slaka á. Þú upplifir mikið frelsi fyrir opnu hafi, fuglarnir flögra yfir þér og þér líður yndislega, þá má segja að upplifun sé að tíminn standi í stað, gleðihormón í heilanum losna úr læðingi við kælinguna, víðáttuna og tenginguna við náttúruna. Við erum flest í sjósundsskóm og -vettlingum og með húfu, þannig verjumst við kuldanum enn betur. Þegar við komum upp úr sjónum þá fáum við okkur heitan drykk, stundum heitt kakó, klæðum okkur í ullarföt næst líkamanum og förum í heita pottinn í sundlauginni. Flestir koma þangað hressir, kátir og alsælir eftir kælinguna og sundið og það eru ófá hlátursköstin sem hafa verið tekin í heita pottinum og flest ef ekki öll heimsins mál rædd. Yfir sumartímann erum við í u.þ.b. hálftíma í sjónum í einu en á veturna kannski í korter, allt eftir hitastigi sjávar hverju sinni,“ segir Bylgja.

Aðstoða björgunarsveitir

Björgunarsveitin Ægir í Garði setti sig í samband við sjósundshópinn í vetur. „Björgunarsveitarmennirnir voru að prófa nýja dróna sem notaðir eru við leit að fólki í sjónum. Þeir voru að æfa sig og vildu sjá hversu langt drónarnir myndu nema okkur í sjónum. Það er hitamyndavél í þeim og á æfingunni mældu þeir að líkamshiti okkar hafi lækkað um tíu gráður á 15 mínútum, það var mjög fróðlegt að taka þátt í þessu verkefni þeirra. Ég er sannfærð um að sjósund sé allra meina bót og hvet alla til að prófa að koma með okkur. Hægt er að gerast félagi í þessum Facebook-hóp, Baujuvaktin í Garðhúsavík - sjósund á Suðurnesjum. Við tökum öllum félögum fagnandi,“ sagði Bylgja að lokum.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25