Gott að koma aftur í Reykjanesbæ
Þorsteinn Gíslason er 53ja á árinu, einstæður faðir 13 ára fótboltastelpu, býr í Reykjanesbæ og starfar hjá Icelandair Ground Service á Keflavíkurflugvelli.
Hvernig varðir þú sumarfríinu?
Tók lítið sumarfrí þar sem ég skipti um starf í vor. Reyni að nota vaktafríin til að slappa af, spila golf, stunda laugarnar o.fl. Svo var ég að standa í flutningum. Bjó m.a. í fjórtán ár á Akranesi áður en ég flutti aftur „heim“.
Hvað hefur staðið upp úr í sumar?
Án efa þegar ég fór með dóttur mína að sjá Billie Ellish í O2 Arena í London í júlí. Frábær upplifun, bæði að sjá Billie live og að sjá hvað dóttirin elskaði þetta.
Það sem stendur einnig upp úr eru bara þessar miklu breytingar að flytja hingað aftur eftir 25 ára fjarveru og að byrja í vinnunni sem ég var í á síðustu öld. Eins og hoppa uppí tímavél að vissu leyti.

Það stóð uppúr í sumar þegar Þorsteinn fór með dóttur sína, Dísellu Ósk, að sjá Billie Ellish í O2 Arena í London í júlí. „Frábær upplifun, bæði að sjá Billie live og að sjá hvað dóttirin elskaði þetta,“ segir Þorsteinn.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Án efa hvað það var gott að koma aftur í Reykjanesbæ. Er alltaf að rekast á gamla vini og kunningja sem ég hef ekki séð mjög lengi.
Svo finnst mér veðrið hafa komið bara skemmtilega á óvart, verið einstaklega gott sumar.
Áttu þér uppáhalds stað til að heimsækja innanlands?
Mér hefur alltaf þótt suður- og suðausturland skemmtilegast. Ég keyrði fóðurflutningabíla um allt land í nokkur ár og þar koma uppsveitir Suðurlands, svæðið undir Vatnajökli sterk inn. Ég hef líka alltaf elskað Skaftafell.
Er eitthvað sérstakt á verkefnalistanum fyrir komandi vetur?
Ég ætla að nota þennan vetur vel í að huga betur að heilsunni, andlegu og líkamlegu. Maður er að detta á þann aldur að það getur skipt sköpum varðandi næstu 15-20 árin hvernig maður fer með sig.
Svo er ég fara að ferma dóttur mína næsta vor.
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
Ég hef voða gaman af Ljósanótt. Þetta er ein glæsilegasta bæjarhátíð landsins.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
Heyrðu, í ár verð ég á næturvakt, annars hefði ég pottþétt farið í árgangagönguna t.d. Ég hef líka alltaf farið á útitónleikana og séð flugeldasýninguna. Verð alltaf 10 ára inní mér þegar ég sé flotta flugeldasýningu.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
Ætli það sé ekki reunion-ið 2021. Veðrið var frábært og það var svo gaman að hitta alla þessu gömlu vini og skólafélaga.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Aðallega sú að ég hef oftast tekið dóttur mína með mér og við höfum oftast farið e-ð út að borða með okkar fólki, þ.e. foreldrum mínum og systkinum, a.m.k. hluta þeirra.