Ljósanótt ein af ástæðum fyrir flutningi til Reykjanesbæjar - þingmaður býður öllum í pönnukökur
Ljósanótt ein af ástæðunum fyrir því að Sigurður Helgi Pálmason féll fyrir Reykjanesbæ
Sigurður Helgi Pálmason, alþingismaður og íbúi í Reykjanesbæ, fór hringinn tvisvar sinnum í sumar. „Ég ferðaðist um landið með fjölskyldunni minni. Við fórum hringinn tvisvar og í fyrsta sinn keyrði ég um Vestfirðina með konunni minni, sem var stórkostlegt,“ segir hann m.a. í léttu samtali við Víkurféttir en þingmaðurinn býður í pönnukökur á heimili sínu á sunnudaginn á Ljósanótt.
Hvað stóð upp úr?
Það var þegar við fórum að skoða Hrafnseyri. Þar tók á móti okkur hin dásamlega Margrét Hrönn Hallmundardóttir, staðarhaldari, og með sinni einstöku nærveru, þekkingu og áhuga sýndi hún okkur allt um þennan fallega stað og umhverfi.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Hversu fljótur yngsti strákurinn minn var að læra að kasta flugu. Við fórum til Vopnafjarðar og eyddum nokkrum dögum með afa Pálma, sem er mikill veiðimaður og snillingur á flugustöngina. Þar fékk strákurin
n minn dýrmæta kennslu og ég einnig. Þetta er eitthvað sem ég mun seint gleyma.
Áttu þér uppáhalds stað til að heimsækja innanlands?
Það eru svo margir, en einn sem bættist í hópinn í sumar er Sandvík hér á Reykjanesinu. Ég hef ætlað að fara þangað frá því ég flutti hingað en lét verða að því núna í sumar, og ég verð að segja að svæðið er stórkostlegt.
Er eitthvað sérstakt á verkefnalistanum í vetur?
Ef þú átt við á Alþingi, þá eru þau verkefnin mörg. Ætli það sé ekki best að nefna eitt: Að reyna að koma Landhelgisgæslunni hingað á svæðið. Það þarf að klára það mál. Svo eru þar fyrir utan nokkrir tugir annarra mála.
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
Ljósanótt er frábær og virkilega skemmtilegt að taka þátt. Hún er ein af ástæðunum fyrir því að ég féll fyrir bænum mínum.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
Ég ætla að leggja áherslu á söfn og tónleikana.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
Að fara með krakkana í tívolíið og sjá gleðina sem þau upplifa. Ég gerði tilraun fyrsta árið að fara með í öll tækin, en það var bara gert einu sinni. Það hefur mikið verið hlegið af gamla þegar hann varð grænn eftir bollatækið.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt?
Já, tvennt sem ég mun aldrei missa af eru árgangagangan og flugeldarnir.