Rokksafn Íslands opnar á ný
Breyttur opnunartími og enginn aðgangseyrir
Rokksafn Íslands hefur opnað á ný eftir breytingar innanhúss í Hljómahöll. Framkvæmdir hafa staðið yfir frá byrjun árs við flutninga Bókasafns Reykjanesbæjar sem hefur nú flutt aðalsafn sitt í Hljómahöll og deilir það fyrstu hæð Hljómahallar með Rokksafni Íslands.
Nýr opnunartími er nú á virkum dögum frá 9:00-18:00 og um helgar frá 10:00-17:00 og þá hefur aðgangseyrir á safnið verið afnuminn.
Nú stendur yfir vinna við að uppfæra og endurnýja sýningu Rokksafnsins og stefnt er að opnun nýrrar sýningar árið 2026. Handritshöfundar uppfærðrar sýningar eru þeir Bergur Ebbi Benediktsson og Snorri Helgason en þeir hafa haldið úti hlaðvarps- og sjónvarpsþáttunum Fílalag í rúman áratug. Þá mun fyrirtækið Gagarín sjá um hönnun sýningarinnar og gagnvirkra sýningaratriða í samstarfi við Hljómahöll og Byggðasafn Reykjanesbæjar.