Lögreglan á Suðurnesjum hvetur til ábyrgðar á Ljósanótt
Ljósanæturhátíðin í Reykjanesbæ er hafin og lögreglan á Suðurnesjum minnir íbúa og gesti á að hátíðin sé fyrst og fremst menningar- og fjölskylduhátíð. „Við viljum biðja gesti og íbúa um að virða þær lokanir sem settar verða upp sem og að sýna viðbragðsaðilum skilning og fara eftir leiðbeiningum þeirra,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Saman með ljós í hjarta
Hátíðin nær hámarki á laugardagskvöldið með glæsilegri flugeldasýningu og lýsingu Bergsins. Lögreglan minnir á slagorð Ljósanætur: „Saman með ljós í hjarta“. „Við viljum sjá sem mest af fjölskyldum saman,“ segir í tilkynningunni.
Aukinn viðbúnaður
Um 25.000 manns eru væntanlegir til bæjarins um helgina og verður lögregla áberandi á svæðinu með auknum viðbúnaði. Samhliða munu sjúkraflutningamenn, björgunarsveitir og starfsfólk Flotans, sem sinnir forvarnarstarfi félagsmiðstöðva, vera á göngueftirliti um hátíðarsvæðið.
„Við munum grípa inn í óeðlilegar hópamyndanir ungmenna og bregðast tafarlaust við ef eitthvað óeðlilegt kemur upp,“ segir lögreglan. „Ef við sjáum áfengi hjá ungmennum sem ekki hafa aldur til, þá verður því hellt niður. Ölvuð börn og ungmenni verða færð í athvarf og haft samband við foreldra.“
Forvarnarstarf í aðdraganda hátíðar
Undanfarna daga hafa samfélagslögreglumenn og starfsfólk Flotans heimsótt alla 8.–10. bekki í grunnskólum Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar. Þar var rætt við nemendur um hvernig eigi að koma fram á fjölmennum hátíðum og hvernig skemmta megi sér á ábyrgan hátt.
Árétting til foreldra
Lögreglan áréttar að foreldrar hafi mikilvægu hlutverki að gegna eftir að dagskrá lýkur á kvöldin. „Við minnum foreldra á að eftir að hátíðarhöldum líkur þá er mikilvægt að börn og ungmenni verði ekki skilin eftir eftirlitslaus á hátíðarsvæðinu og minnum á útivistartímann.“
Samstarf og gleði
Í lok tilkynningar hvetur lögreglan fólk til að njóta hátíðarinnar:
„Annars bara góða skemmtun um helgina, njótum þess að vera saman sem fjölskylda og minnum fullorðna fólkið á að við erum fyrirmyndir ungmennanna. Okkur hlakkar mikið til að eiga frábært samstarf með íbúum og gestum alla helgina. Gleðilega Ljósanótt.“