Njarðvík, Reynir og Víðir sameina krafta sína
Knattspyrnudeildir Njarðvíkur, Reynis og Víðis hafa undirritað sögulegan samstarfssamning í karlaflokki um rekstur á 3. 4. og 5. flokki. Samningurinn, sem tekur gildi þegar í stað, markar tímamót í þessum aldursflokkum karla og er ætlað að efla íþróttina og skapa öflugri umgjörð fyrir iðkendur á svæðinu.
Það voru þau Grétar Gíslason, formaður Barna- og unglingaráðs Njarðvíkur, Elísabet Amanda Sigurðardóttir, fulltrúi Unglingaráðs Víðis og Ása Lilja Rögnvaldsdóttir, fulltrúi Unglingaráðs Reynis, sem skrifuðu undir samninginn fyrir hönd félaganna.
Samstarfið felur í sér að liðin þrjú munu æfa og keppa saman, nýta bestu aðstöðu sem völ er á hverju sinni og tryggja öllum iðkendum þjálfun við hæfi. Markmiðið er að styrkja leikmannahópa, auka samkeppni og um leið tryggja að allir fái tækifæri til að vaxa og dafna í íþróttinni.
Grétar Gíslason, formaður Barna- og unglingaráðs Njarðvíkur, segir í tilkynningu samstarfið vera mikið fagnaðarefni fyrir alla aðila:
„Þetta er gríðarlega spennandi skref fyrir knattspyrnuna á öllu svæðinu. Það er mikill styrkur fólginn í því að standa saman og með því að sameina krafta getum við boðið strákunum enn betri og faglegri umgjörð. Eitt af okkar aðalmarkmiðum er að halda sem flestum iðkendum í íþróttinni sem lengst og þetta samstarf er besta leiðin til að tryggja það fyrir þessa aldursflokka. Við bjóðum iðkendum og foreldrum frá Reyni og Víði hjartanlega velkomna í þetta metnaðarfulla samstarf og saman erum við öll að byggja upp eitthvað stærra fyrir strákana okkar og næstu kynslóð knattspyrnumanna á Suðurnesjum.“