Jón Eysteinsson látinn
Jón Eysteinsson, fv. sýslumaður í Keflavík, lést 2. september, 88 ára að aldri.
Jón fæddist í Reykjavík 10. janúar árið 1937. Foreldrar hans voru Eysteinn Jónsson, þingmaður og ráðherra, og Sólveig Guðrún Jóna Eyjólfsdóttir húsmóðir.
Jón tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1957, lögfræðipróf frá HÍ 1965 og varð löggiltur fasteignasali sama ár. Árið 1966 fékk hann réttindi sem héraðsdómslögmaður. Með námi var hann starfsmaður Landsbanka Íslands og rak síðan fasteignasölu og málflutningsstofu 1965-1966.
Jón var fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Keflavík 1966 og bæjarfógetanum í Kópavogi 1966-1970, vann á lögfræðiskrifstofu Jóns Einars Jakobssonar 1969-1971 og var aftur fulltrúi og síðan aðalfulltrúi hjá fógetanum í Keflavík 1971-1974. Jón var héraðsdómari hjá bæjarfógetanum í Keflavík, Grindavík, Njarðvík og sýslumanninum í Gullbringusýslu 1974-1975. Hann var sýslumaður sama embættis 1975-1992, er því var breytt í embætti sýslumanns í Keflavík, og gegndi því starfi til ársins 2007, að hann fór á eftirlaun. Jón lét ekki þar við sitja og sinnti lögmannsstörfum næstu tíu árin, með aðstöðu á lögmannsstofu Ásbjörns Jónssonar.
Jón sinnti ýmsum félagsstörfum fyrir dómarafulltrúa og sýslumenn og var lengi félagi í Lionsklúbbi Keflavíkur. Þá átti hann sæti í stjórn Sparisjóðsins í Keflavík árin 1983-1991.
Jón var mikill íþróttaáhugamaður og á yngri árum lék hann körfuknattleik, varð Reykjavíkurmeistari með Íþróttafélagi stúdenta árið 1957 og Íslandsmeistari með sama félagi tveimur árum síðar. Var Jón valinn í fyrsta landslið Íslands í körfuknattleik árið 1959 og sinnti dómgæslu að ferli loknum, dæmdi m.a. landsleiki. Hann átti um tíma sæti í stjórn KKÍ og fékk gullmerki sambandsins árið 1991. Jón var í ritnefnd bókarinnar Leikni framar líkamsburðum um sögu körfuknattleiks hér á landi. Jón kynntist golfíþróttinni og fór eins oft og tækifæri gafst til að fara í golf. Þá mætti hann reglulega til sunds í Keflavík í áratugi með félögum sínum í Fyrstu deildinni.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Magnúsína Guðmundsdóttir, f. 1943. Synir þeirra eru Eysteinn, f. 1970, og Guðmundur Ingvar, f. 1977. Sonur Magnúsínu og stjúpsonur Jóns er Karl Jónsson, f. 1965. Barnabörnin eru tíu og langafabarn eitt.