Krambúðinn 4-7 sept
Krambúðinn 4-7 sept

Mannlíf

Eddi er elsti  veiðimaðurinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 7. september 2025 kl. 06:00

Eddi er elsti veiðimaðurinn

Veiddi fjóra laxa í Ytri-Rangá, þar af einn stórlax Ekki ánægður með að þurfa sleppa veiddum laxi og segir það ekki hafa gefið góða raun

„Þeir sögðu að ég væri líklega elsti veiðimaðurinn sem hafi komið í ána en þetta var gaman og gekk vel,“ segir Grindvíkingurinn Eðvarð Júlíusson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar og athafnamaður en hann gerði góða veiðiferð í Ytri-Rangá á dögunum og veiddi fjóra laxa. Einn var á leiðinni í pottinn um kvöldið. Eddi vildi fá nýveiddan lax í kvöldmat.

Eddi verður 92 ára 7. september en hann er heilsuhraustur og hress og það lá vel á karli þegar blaðamaður Víkurfrétta hringdi í hann síðdegi á mánudag en þá var hann á heimleið eftir skemmtilega veiðidaga fyrir austan.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Eddi hefur alla tíð verið áhugasamur stangveiðimaður en hann veiddi fjóra laxa í Ytri-Rangá og sá stærsti var 86 sm. eða um 15-16 pund. Það var hængur sem okkar maður þurfti að hafa fyrir, tekinn á einhverja litla flugu. „Hann barðist ansi vel og það tók ágæta stund að landa fiskinum sem var fallegur en ég þurfti að sleppa honum í kistu. Þeir létu mig hafa annan fisk úr frystinum sem ég mátti taka með heim. Hinir voru undir hámarkslengd fiska og því mátti ég hirða þá.“

Hvað finnst þér um það að veiða og sleppa svo fiskinum aftur í ána?

„Það er bara tóm þvæla. Það hefur sannað sig. Veiðin hefur bara hnignað síðustu ár eftir að þetta byrjaði. Ég heyrði í einum kunningja mínum nýlega sem var að koma úr Þverá. Þar veiddu þeir á þrjár stangir en það veiddist ekki neitt.“

Eddi og Dagur leiðsögumaður í Ytri-Rangá gleðjast yfir 86 sm. stórlaxi.

Var þetta góð veiðiferð?

„Þetta var ansi skemmtilegt og svo var góður matur og gistingin fín. Svo var leiðsögumaðurinn okkar í veiðinni mjög fínn.“

Hefurðu veitt meira í sumar?

„Já, ég fór í Haukadalsá. Við fengum tíu laxa og átta hnúðlaxa. Það er nú meiri ófögnuðurinn. Þeir þurfa nú að fara að gera eitthvað í því.“

Einn laxinn sem Eddi veiddi var nýgenginn og spegilfagur og sá var á leið í pottinn. Með honum var Ottó Hafliðason, tengdasonur Eðvarðs. Hann er líka hörku veiðimaður og veiddi sex laxa.

Eðvarð er ekki bara lunkinn veiðimaður heldur líka duglegur kylfingur. „Ég fer nokkuð oft í golf. Maður gerir það á meðan heilsan leyfir. Ég skýst á Húsatóftavöll (í Grindavík) og tek nokkrar holur með félögunum.“

En hvað ætlar þú að hafa með laxinum í kvöldmatinn?

„Bara þetta venjulega, kartöflur og smjör. Þverskorinn í pottinn, getur ekki verið betra,“ sagði Eddi.

Þessi lax var á leið í pottinn.