Nýjar félagsmiðstöðvar rísa í Innri-Njarðvík
Á fundi lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar 2. september kynntu Davíð Már Gunnarsson og Petra Wíum Sveinsdóttir, deildarstjórar nýrra félagsmiðstöðva í Innri-Njarðvíkurhverfi, undirbúning og fyrirhugaða starfsemi.
Ráðið fagnaði áformunum og lagði áherslu á að slíkar miðstöðvar verði mikilvægur þáttur í heilsueflingu, forvörnum og félagslegum tengslum ungmenna í bænum.
Gildi og markmið byggt á barnvænum grunni
Í kynningunni kom fram að starf félagsmiðstöðva í Reykjanesbæ byggir á skýrum gildum og stefnum, meðal annars Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, mennta- og tómstundastefnu sveitarfélagsins og framtíðarsýn þess um fjölbreytileika.
Félagsmiðstöðvarnar munu bjóða bæði dagopnanir og kvöldopnanir.
Unglingastig (8.–10. bekkur): Kvöldopnanir verða tvisvar í viku á hverri starfsstöð, auk föstudagsopnana annan hvern föstudag.
Miðstig (5.–7. bekkur): Síðdegisopnanir tvisvar í viku í hverjum skóla, með séropnunum fyrir 7. bekk.
Allir nemendur í 5.–10. bekk geta sótt opnanir óháð skóla og staðsetningu.
Samstarf í þágu ungs fólks
Lögð verður áhersla á náið samstarf við skóla, foreldrafélög, íþróttafélög og önnur félagasamtök í bænum. Félagsmiðstöðvarnar verða einnig hluti af stærra neti á lands- og Evrópavísu, meðal annars í gegnum SAMFÉS, SAMSUÐ og Erasmus+.
Áherslur deildarstjóra snúa meðal annars að undirbúningi og skipulagi starfsins í samstarfi við ungmenni, viðburðahaldi, forvörnum, hópastarfi og tengslamyndun við skólasamfélagið. Félagsmiðstöðvarnar munu jafnframt taka þátt í bæjarhátíðum og sameiginlegum verkefnum, svo sem Ljósanótt, 17. júní, BAUN-hátíðinni og forvarnarherferðum.
Lýðheilsuráð tók jákvætt í kynninguna og taldi að nýju félagsmiðstöðvarnar í Innri-Njarðvíkurhverfi yrðu mikilvæg stoð í starfi bæjarins til að efla félagsleg tengsl og stuðla að heilbrigðum lífsstíl ungmenna.