Byko 11-13 sept opnunarhátíð
Byko 11-13 sept opnunarhátíð

Íþróttir

Spenna hjá Suðurnesjaliðunum fyrir lokaumferðina
Hátt í tvö þúsund manns mættu á leik Keflavíkur og Njarðvíkur á Ljósanæturlaugardegi. VF/hilmarbragi.
Fimmtudagur 11. september 2025 kl. 08:22

Spenna hjá Suðurnesjaliðunum fyrir lokaumferðina

Eftir frábært knattspyrnusumar þar sem veðurguðirnir klæddu sig í sparifötin lengstum, er komið að lokaumferðinni og er óhætt að segja að spenna sé á öllum vígstöðvum nema hjá Reynismönnum, þeir sigla á hinum lygna sjó 3. deildar.
Í Lengjudeild karla eiga Njarðvíkingar möguleika á að vinna deildina, Keflvíkingar eru í baráttu um að komast í umspil og Grindvíkingar gætu fallið ef þeir tapa og önnur úrslit verða þeim óhagstæð.
Þróttur í Vogum eru efstir í 2. deild en einungis einu stigi ofar en næstu tvö lið og þeir mæta öðru þeirra í lokaumferðinni. Loksins kom að því að Víðir tapaði leik og við tapið færðust þeir á ný í fallsæti, og mæta hinu liðinu sem er að narta í hælana á Þrótti á toppnum, Ægi.
Lengjudeild karla

Allir Suðurnesjamenn vita líklega af stórleiknum á Ljósanóttinni á milli Keflavíkur og Njarðvíkur. Eftir að Njarðvík var betri aðilinn í fyrri hálfleik, setti Keflavík tvö mörk í seinni hálfleik og náði að knýja fram mjög mikilvægan sigur, 2-1. Keflavík mætir Selfossi á útivelli í lokaumferðinni en Selfyssingar færðust niður í fallsæti í síðustu umferð og þurfa nauðsynlega að vinna til að halda sæti sínu. Keflvíkingum dugir ekki sigur, þeir þurfa að treysta á að HK eða ÍR tapi sínum leik, HK fer til Húsavíkur og mætir Völsungi og ÍR mætir Fylkismönnum, sem sömuleiðis eru í fallhættu.

Ragnar Aron Ragnarsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Keflavíkur, er bjartsýnn fyrir laugardaginn.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Ég hef alltaf trú á mínum mönnum og við förum í alla leiki til þess að sækja sigur. Okkur hefur kannski skort stöðugleika en nú smellur það. Vissulega er óþægilegt að þurfa að treysta á aðra en okkur sjálfa en við getum ekki verið að spá of mikið í því. Ég vil hvetja Keflvíkinga til þess að fjölmenna á völlinn í þessum erfiða útileik, við þurfum á því að halda,“ sagði Ragnar Aron.

Njarðvíkingar voru súrir í leikslok á Ljósanóttunni, eftir að hafa verið betri aðilinn í fyrri hálfleik. Þórsarar tylltu sér á toppinn, eru með 42 stig, Þróttur með 41 og Njarðvík með 40 og ljóst að æsispennandi lokaumferð er í uppsiglingu. Njarðvíkingar fá grannana frá Grindavík í heimsókn og Þróttur og Þór mætast í Reykjavík.

Ingi Þór Þórisson er rekstrarstjóri knattspyrnudeildar UMFN.

„Auðvitað vorum við svekktir á laugardaginn, sérstaklega eftir góðan fyrri hálfleik þar sem við vorum mun betri en grannar okkar. Mörk breyta leikjum og upp úr engu fengum við mark á okkur og því fór sem fór. Það breytir því ekki að við erum í bullandi séns á að vinna deildina en ef það gerist ekki, tökum við bara umspilið. Við höfum bætt árangur okkar markvisst undanfarin ár, Gunnar Heiðar var sannkallaður hvalreki á okkar fjörur og laugardagurinn verður stór dagur í sögu knattspyrnudeildar UMFN, við höfum aldrei verið svo nærri því að komast í efstu deild í knattspyrnu og við ætlum að njóta dagsins. Ég trúi ekki öðru en mjög góð mæting verði og býð vini okkar úr Grindavík hjartanlega velkomna. Þeir eru að berjast fyrir sínu lífi en það þarf margt að fara úrskeiðis svo þeir eigi að falla, ég vona innilega að þeir haldi sér á lífi en þá með aðstoð annarra, við ætlum okkur ekkert nema sigur í leiknum,“ sagði Ingi Þór.

2. deild karla

Þróttarar úr Vogum hafa verið frábærir í sumar og eru með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina. Þeir eru efstir en bara einu stigi fyrir ofan Ægi og Gróttu og mæta síðnarnefnda liðinu á útivelli á Seltjarnarnesi á laugardaginn. Ægir mætir Víðismönnum á sama tíma og Víðir komið í fallsæti og því er ljóst að mikil spenna verður á toppi og botni 2. deildar á laugardaginn.

Marteinn Ægisson er framkvæmdastjóri Þróttar í Vogum.

„Við ætlum að njóta laugardagsins, það eru forréttindi að fá að spila úrslitaleik um að komast upp í Lengjudeildina og við ætlum að gera okkur glaðan dag með stuðningsmönnum og vonandi sem flestum bæjarbúum. Ég hvet alla til að koma út á Seltjarnarnes og styðja Þróttara til sigurs á móti Gróttu. Við förum pressulausir inn í þennan leik, árangurinn í sumar er umfram væntingar okkar eftir breytingar og þjálfaraskipti skömmu fyrir mót, misstum lykilmann einnig, í kjölfarið var liðinu spáð áttunda sæti af fyrirliðum og þjálfurum annara liða í 2. deildinni. Strákarnir hafa sýnt að þeir eru eitt af betri liðinum í deildinni. Við ætlum okkur að vinna leikinn á laugardaginn og spila í Lengjunni að ári.

Einnig vil ég nota tækifærið og óska kvennaliði Grindavíkur/Njarðvíkur til hamingju með sætið í Bestu deildinni 2026. Frábær árangur og það er mikilvægt fyrir fótboltann á Suðurnesjum að vera með lið í efstu deildum. Þarna eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir unga iðkendur og gangi liðinu sem allra best á næsta ári,“ sagði Marteinn.

Víðismenn voru búnir að vera á góðum skriði og höfðu ekki tapað í sex leikjum í röð, en þurftu loks að lúta í gras á laugardaginn og töpuðu fyrir KFA, 2-0 og á sama tíma vann Kári sinn leik og Víðismenn færðust því í næstsíðasta sæti, fallsæti. Þeir verða því að vinna sinn leik og treysta á önnur úrslit og andstæðingurinn er ekki af verri gerðinni, Ægir úr Þorlákshöfn sem eru búnir að vera við toppinn í allt sumar og tryggja sér sæti í Lengjudeildinni að ári með sigri því liðin í kringum þá, Þróttur og Grótta, mætast eins og áður sagði.

3. deild karla

Reynismenn sigla á hinum lygna sjó en þeir unnu góðan sigur í síðustu umferð, unnu KF á útivelli, 0-3 með mörkum Elfars Mána Bragasonar, Sigurðar Orra Ingimarssonar og Ólafs Darra Sigurjónssonar.

Reynismenn mæta Magna á Bronsvellinum í Sandgerði í lokaumferðinni á laugardaginn.

Allir leikir á laugardag hefjast kl. 14:00