KSTeinarsson sýning
KSTeinarsson sýning

Fréttir

Samþykkja fjögurra milljarða lántöku
Gríðar mikill kostnaður hefur verið í endurbyggingu skóla í Reykjanesbæ. VF/pket.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 10. september 2025 kl. 14:01

Samþykkja fjögurra milljarða lántöku

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum 2. september að taka allt að fjögurra milljarða króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Lánsféð verður nýtt til að fjármagna framkvæmdir við leikskólann í Drekadal og áframhaldandi endurbætur á Myllubakkaskóla og Holtaskóla vegna rakaskemmda, auk þess sem það leysir af hólmi skammtímalán sem þegar hafa verið tekin á árinu 2025.

Lántakan var samþykkt með sjö atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Umbótar sátu hjá.

Í umræðum um lántökur samþykktu Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót að bæta við 700 milljónum í viðbótarlánveitingu til að ljúka skólaframkvæmdum. Þeir höfnuðu hins vegar tillögu meirihlutans um að hækka lántökuheimildina um 800 milljónir „til að eiga fyrir ófyrirséðu“.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Við getum ekki samþykkt þessa viðbótar 800 milljóna lántöku án þess að skilgreint sé betur í hvað fjármunirnir eigi að fara. Það er mikilvægt að ábyrg fjármálastjórn sé til staðar til þess að skapa aðhald,“ sagði í sameiginlegri bókun Sjálfstæðisflokks og Umbótar.

„Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót samþykkja viðbótarlánveitingu upp á 700 milljónir við þá 2,5 milljarða lántöku sem þegar hefur verið samþykkt, eða samtals 3,2 milljarða lán.

Viðbótarlántökunni er ætlað að greiða fyrir verkefnum við leikskólann Drekadal, Myllubakkaskóla og Holtaskóla þannig að hægt sé að ljúka þeim framkvæmdum sem fyrst. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar lögðu einnig til að bæta við lántökuna 800 milljónum „til að halda áfram dampi í framkvæmdum og eiga fyrir ófyrirséðu“ eins og segir í tillögum meirihlutans.

Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót telja sig ekki geta samþykkt þessa viðbótar 800 milljóna lántöku án þess að skilgreint sé betur í hvað fjármunirnir eigi að fara enda mikilvægt að ábyrg fjármálastjórn sé til staðar til þess að skapa aðhald.

Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót leggja mikla áherslu á að ljúka sem fyrst við framkvæmdir Holtaskóla, Myllubakkaskóla og leikskólans Drekadals og ítrekar að ábyrg fjármálastjórn felur í sér að áætlanir standist. Við höfum ítrekað bent á að fjárhagsáætlanir meirihlutans hafi brugðist. Framhaldið verður að vera unnið með skýrri forgangsröðun, gagnsæi og reglulegri framsetningu á fjárhagsstöðu verkefnanna og fjárhagsstaða verkefna skoðuð í samræmi við áætlanir.

Leggja þarf áherslu á góða fjármála- og framkvæmdastýringu þessara verkefna og að farið sé reglulega yfir hvar misbrestur hefur orðið á miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir,“ segir orðrétt í bókuninni sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson skrifa undir ásamt bæjarfulltrúa Umbótar, Margréti Þórarinsdóttur.