Ljós í lund og hjarta á Ljósanótt
Um síðustu helgi var einstakt að fá að njóta töfra Ljósanætur; að heimsækja sýningar, markaði og upplifa fjörið. Það sem er einstakt við þessa fjölbreyttu hátíð er hversu ekta hún er á alla vegu. Framtakssemi heimamanna skín í gegn og margfaldar gleðina.
Ljósanótt er að sumu leyti falin perla sem allt of fáir Íslendingar þekkja. Fyrir mér er hún eins konar þjóðhátíð Reykjanessins og ætti að skipa sterkan sess í hugum landsmanna. Reykjanesbær skapar hátíðinni fullkomna umgjörð með því besta sem finna má í menningu, umhverfi, mat og gistingu hér á landi – allt í senn. Því er óhætt að spá því að vinsældir Ljósanætur eigi eftir að aukast og hátíðin muni laða að sér enn fleiri gesti á komandi árum. Framtíðin er björt!
Að lokum má ljóstra upp að Ljósanótt á sérstakan stað í hjarta mínu. Þann 7. september 2013 var mér boðið í óvissuferð sem hófst á Ljósanótt og endaði með bónorði! Maðurinn minn valdi dagsetninguna „7.9.13“ af kostgæfni - happatölur í þeirri von að ekkert myndi klikka! Og svarið var að sjálfsögðu já. Því er sérlega notalegt að geta heimsótt Ljósanótt á trúlofunarafmælinu og fagnað með ljós í lund og hjarta.
Til hamingju með framúrskarandi Ljósanótt! Hún er bjartur kyndill minninga sem lýsir upp skammdegið í komandi vetrartíð.