Fjörutíu ára afmæliskaffi Fimleikadeildar Keflavíkur 12. september
Þann 12. september 1985 var Fimleikafélag Keflavíkur stofnað af Margréti Einarsdóttur en með henni í stjórn voru Ingibjörg Óskarsdóttir, Jóhanna Gunnarsdóttir, Laufey Kristjánsdóttir og Inga María Ingvarsdóttir. Í upphafi var æft í íþróttahúsinu við Myllubakkaskóla en þar sem félagið stækkaði mjög hratt þurftu æfingar að færast í A-salinn við Sunnubraut.
Haustið sem deildin var stofnuð voru um 93 iðkendur og mikill fjöldi á biðlista. Eftirspurn eftir að því að æfa fimleika var mikil hjá stúlkum á öllum Suðurnesjum, þar sem ekki var algengt á þessum tíma að stúlkur æfðu boltaíþróttir eins og drengir gerðu. Þar sem Fimleikafélagið var ungt félag og ekkert annað slíkt starfrækt á Suðurnesjum var erfitt að fá þjálfara til starfa og tók þá stjórn Fimleikafélagsins til sinna ráða að þjálfa upp sína eigin þjálfara og störfuðu um átta stúlkur hjá félaginu ásamt kínverskum þjálfara sem þjálfaði einnig hjá Björkunum í Hafnarfirði. Í upphafi árs 1986 eignaðist félagið sitt fyrsta áhald sem var heimasmíðuð jafnvægisslá. Á fyrstu árum deildarinar bættist smátt og smátt við áhaldasafnið.
Í desember 1986 var fyrsta jólasýningin haldin í íþróttahúsinu við Sunnubraut, þar tóku allar stúlkurnar þátt sem æfðu hjá félaginu. Það var nóg um að vera hjá þessu unga félagi í upphafi og miklar vonir voru bundnar við að starfsemin myndi aukast með tilkomu nýs íþróttasala í Keflavík.
Fimleikadeild Keflavíkur býður í kaffi og köku á 40 ára afmæli deildarinnar föstudaginn 12. september kl:14-17 í Íþróttaakademíunni Sunnubraut.
Allir velkomnir.