Íþróttir

Njarðvík lenti á vegg í lokin
Það var tekist á í leik Njarðvíkinga og Tindastóls. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 21. apríl 2022 kl. 23:26

Njarðvík lenti á vegg í lokin

Njarðvík tók á móti Tindastóli í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Subway-deildar karla í körfuknattleik. Eftir jafnan og harðan leik voru það stólarnir sem reyndust sterkari á lokametrunum og tóku forystu í einvíginu. Lokatölur 79:84.

Njarðvík - Tindastóll 79:84

(25:16, 18:25, 19:19, 17:24)

Leikurinn var jafn frá byrjun og ljóst að leikmenn myndu leika fast. Skorið hélst jafnt lengst af fyrsta leikhluta en í lok hans náðu Njarðvíkingar góðum spretti og breyttu stöðunni úr 17:16 í 25:16. Í byrjun annars leikhluta náðu Njarðvíkingar tíu stiga forystu (27:17) og var það mesti munur sem varð á liðunum. Stólarnir tóku fljótlega við sér og fóru að saxa á forskot heimamanna. Skömmu fyrir hálfleik jöfnuðu þeir leikinn (41:41) en Mario Matasovic sá til þess að Njarðvík færi með forystu inn í hálfleikinn með góðri troðslu (43:41).

Fotios Lampropoulos var sterkastur Njarðvíkinga í kvöld með 30 stig, 12 fráköst og 34 framlagspunkta.

Allur þriðji leikhluti var stál í stál, hnífjafn og mikil slagsmál eins og við er að búast í svona mikilvægum leik. Liðin voru samstíga í stigasöfnun og þegar kom að fjórða leikhluta leiddu Njarðvíkingar með tveimur stigum (62:60). Stólarnir byrjuðu fjórða leikhluta með látum, gerðu sjö fyrstu stigin og snéru leiknum sér í vil (62:67). Áfram héldu slagsmálin og jafnræðið en það voru Sauðkræklingar sem tóku forystuna undir lokin þegar þeir breyttu stöðunni úr 74:73 í 74:80, komnir með sex stiga forskot og tvær og hálf mínúta eftir. Það reyndist of mikið til að Njarðvíki næði að jafna leikinn og Stólarnir tóku því fyrsta leikinn.

Öðruvísi „troðsla“ hjá Dedrick Deon Basile þegar hann tróð sér á ótrúlegan hátt á milli tveggja turna Tindastóls.

Njarðvík: Fotios Lampropoulos 30/12 fráköst, Dedrick Deon Basile 19/7 fráköst/10 stoðsendingar/5 stolnir, Haukur Helgi Pálsson 9/4 fráköst, Logi Gunnarsson 8, Mario Matasovic 6/4 fráköst, Nicolas Richotti 4/6 fráköst/5 stoðsendingar, Veigar Páll  Alexandersson 3, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Maciek Stanislav Baginski 0, Jan Baginski 0, Ólafur Helgi Jónsson 0.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga, ræddi við vefmiðilinn Karfan.is eftir leik og má sjá í spilaranum hér að neðan.

Tengdar fréttir