Viljum þjappa stelpunum saman og byggja upp virðingu
GeoSilica mótið haldið í tíunda sinn
GeoSilica-mótið í knattspyrnu er nú haldið í tíunda sinn. Mótið hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem einn stærsti og mikilvægasti árlegi viðburðurinn fyrir yngri flokka kvenna innan félagsins. GeoSilica mótið er ætlað stúlkum í 5., 6. og 7. flokki, og eru þær allar leystar út með gjöf að móti loknu frá aðalstyrktaraðilanum, GeoSilica. Mótið hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin en árið 2023 var metþátttaka, þegar um 1.200 stúlkur voru skráðar til leiks. Stefnt er að svipuðum fjölda í ár.
Í aðdraganda GeoSilica mótsins settumst við niður með Benný, Benediktu Benediktsdóttur, formanni meistaraflokks kvenna í knattspyrnu hjá Keflavík.
„Svona mót hafa gríðarlega jákvæð áhrif á stelpurnar okkar,“ segir Benný. „Yngri stelpurnar horfa upp til meistaraflokksins og fá fyrirmyndir sem sýna þeim hvað er hægt að ná langt með samvinnu, metnaði og gleði.“
Mikilvægt hlutverk eldri stúlkna
Hún bendir jafnframt á að mótið sé dýrmætur vettvangur fyrir eldri stelpur innan félagsins. „Stelpurnar í meistaraflokknum taka virkan þátt í mótinu, meðal annars í dómgæslu og skipulagi. Það styrkir sjálfstraustið og eykur ábyrgðartilfinningu sem er lærdómur sem þær taka með sér áfram.“
Áhersla á samheldni og virðingu
Að sögn Bennýjar snýst GeoSilica mótið ekki eingöngu um keppni. „Það sem við viljum fyrst og fremst gera er að þjappa stelpunum saman og kenna þeim að bera virðingu hver fyrir annarri – bæði innan vallar og utan. Stemningin á mótinu endurspeglar þetta og það er eitthvað sem allir finna fyrir.“
Mótið er haldið á tveimur dagsetningum í ár. Stúlkur í 5. flokki keppa 31. janúar, en 6. og 7. flokkur keppa 14. febrúar.
Foreldrar, leikmenn og þjálfarar hafa í gegnum tíðina lýst mikilli ánægju með framkvæmd mótsins. „Við erum stöðugt að reyna að gera hlutina aðeins öðruvísi og leggja mikinn metnað í framkvæmdina. Það skilar sér í góðri upplifun fyrir alla sem koma að mótinu,“ segir Benný.
GeoSilica ómetanlegur bakhjarl
GeoSilica hefur verið aðalstyrktaraðili mótsins frá upphafi og segir Benný þann stuðning ómetanlegan. „Að hafa fyrirtæki eins og GeoSilica með okkur skiptir gríðarlega miklu máli. Þau styðja ekki bara við mótið heldur leggja líka áherslu á að hver leikmaður fái gjöf – það skapar jákvæða upplifun og fallega minningu fyrir stelpurnar.“
Fida Abu Libdeh, stofnandi og eigandi GeoSilica, segir stuðninginn koma beint frá hjartanu:
„Fyrir okkur hjá GeoSilica snýst þetta um miklu meira en styrktarsamning. Þetta snýst um að styðja við sjálfstraust, samheldni og framtíð stelpna í íþróttum. Við erum ótrúlega stolt af því að hafa stutt mótið í tíu ár og að fá að vera hluti af þessari vegferð með knattspyrnufélaginu í Keflavík og nærsamfélaginu.“
Hún bætir við að það sé sérstakt að fylgjast með mótinu vaxa ár frá ári:
„Að sjá yfir þúsund stúlkur taka þátt, finna gleðina í hreyfingu og upplifa styrk liðsheildarinnar er ómetanlegt. Þetta eru augnablik sem skipta máli og fylgja þeim lengi.“
Gleði, metnaður og framtíðarsýn
GeoSilica mótið hefur með árunum skapað sér sterka stöðu sem uppbyggilegur og jákvæður viðburður fyrir kvennaknattspyrnu í Keflavík. „Allir eru mjög ánægðir,“ segir Benný að lokum. „Við finnum fyrir miklum metnaði og gleði í kringum mótið – og það er nákvæmlega það sem við viljum standa fyrir.“





