Stapaskóli ekki dýrasti skóli landsins
Stapaskóli í Reykjanesbæ er ekki dýrasti grunnskóli landsins, síður en svo, segir meirihluti bæjarráðs í bókun á fundi ráðsins í morgun. Í henin segir að vel vel sé haldið utan um fjármagn til framkvæmda í bæjarfélaginu og að önnur sveitarfélög lítil til Reykjanesbæjar sem jákvæðrar fyrirmyndar í þeim efnum.
Á fundinum kynntu Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og Hreinn Ágúst Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu samantekt fjármála í fjárfestingaverkefnum.
„Meirihluti bæjarráðs þakkar fyrir samantektina sem sýnir svo ekki verður um villst að vel er haldið utan um það fjármagn sem fer í framkvæmdir í Reykjanesbæ. Lykiltölur framkvæmda sýna að uppreiknaður heildarkostnaður á hvern fermetra er vel undir samanburðarviðmiðum bæði í leik- og grunnskólum. Þau frávik sem koma fram snúa að framkvæmdum þar sem enn er óvíst með uppgjör vegna samninga og/eða málaferla. Sem dæmi má nefna að lengi hefur því verið haldið fram að Stapaskóli sé dýrasti grunnskóli landsins en hér sést svart á hvítu að það er rangt þar sem uppreiknað fermetraverð er um 860 þúsund krónur sem er í samræmi við viðmið Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það er því ljóst að Reykjanesbær hefur gætt aðhalds þegar kemur að byggingu skólans og kostnaðaráætlanir eru innan vikmarka. Það hefur verið gert á sama tíma og aðstaða og aðbúnaður innan skólans er til fyrirmyndar bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Það er því ekki skrýtið að önnur sveitarfélög líti til Reykjanesbæjar sem jákvæðrar fyrirmyndar,“ segir í bókunni.







