Listasafn Reykjanesbæjar hættir sýningarskrám
– stefnir á eina veglega bók á ári
Listasafn Reykjanesbæjar hyggst hætta útgáfu sýningarskráa með hverri sýningu og færa útgáfuna yfir í umfangsmeiri bókaútgáfu. Þetta kom fram á fundi menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar sem haldinn var 23. janúar.
Á fundinum mætti Helga Þórsdóttir og kynnti nýútkomna bók safnsins um feril listamannsins Ívars Valgarðssonar. Bókin, sem kom út í desember 2025, ber heitið Úthaf og er kennd við sýningu Ívars í Listasafni Reykjanesbæjar árið 2025.
Samkvæmt kynningu Helgu er bókin hönnuð í anda sýningarinnar og á að vera „góð heimild um innsetningu Úthafs“. Sýningin var sögð sérstaklega hugsuð fyrir rými safnsins og yrði ekki endursýnd annars staðar, sem hafi kallað á frekari miðlun og skráningu í bókarformi.
Fram kom að safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar hafi tekið ákvörðun um að hætta að gefa út sýningarskrár með „hverri einustu sýningu“. Í staðinn verði stefnt að einni veglegri útgáfu á ári, að því gefnu að styrkur fáist til verkefnisins. Þá verði metið ár hvert hvaða sýningu verði miðlað nánar með útgáfu.
Sýning Ívars Valgarðssonar var styrkt af Safnasjóði og Myndlistarsjóði.
Í fundargerðinni er bent á að bókaútgáfa sé hluti af meginhlutverki safna – skráning, varðveisla, rannsóknir og miðlun – og að listasöfn gefi jafnan út bæði sýningarskrár og bækur árlega.







